Verslun með áfengi og tóbak

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:10:23 (2601)

2003-12-04 12:10:23# 130. lþ. 42.2 fundur 342. mál: #A verslun með áfengi og tóbak# (einkaréttur til innflutnings á tóbaki, EES-reglur) frv., 343. mál: #A gjald af áfengi og tóbaki# (tóbaksgjald) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:10]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara fullvissa mig um að ég hafi skilið hv. þm., talsmann Samf. hér í brennivíns- og tóbaksmálum, rétt, að hann sé að fagna því alveg sérstaklega að það sé verið að færa þessar vörur út á markað af hendi ÁTVR. Og ekki get ég deilt gleði hans yfir boðskapnum frá Brussel, að þaðan komi frelsisboðskapurinn eina ferðina enn. Nú er það tóbakið og brennivínið sem Samf. fagnar, áður var það þá væntanlega símaþjónustan og raforkugeirinn sem við eigum að fara að einkavæða eða halda með inn á markaðsbrautir. Mundi hv. þm. taka undir það ef Brussel skipaði okkur að einkavæða drykkjarvatnið? Það er nú mjög til umræðu í Evrópusambandinu að taka drykkjarvatnið og færa það inn á markaðstorgið, það er tekist mjög hart á um þetta í Evrópu. Hluti verkalýðshreyfingarinnar hefur m.a. lagst mjög eindregið gegn þessu og lagst mjög eindregið gegn því sem hv. þm. talar um, frelsisboðskapinn frá Brussel, og birtist okkur í þessu frv. um að færa tóbaksverslun úr höndum ÁTVR yfir til einkaaðila.