Úrvinnslugjald

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 12:19:53 (2605)

2003-12-04 12:19:53# 130. lþ. 42.5 fundur 400. mál: #A úrvinnslugjald# (net, umbúðir o.fl.) frv. 144/2003, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[12:19]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, með síðari breytingum.

Í upphafi má geta þess að lög nr. 162/2002, um úrvinnslugjald, öðluðust gildi 1. janúar 2003 og frá sama tíma tók Úrvinnslusjóður til starfa.

Þegar frv. til laga um úrvinnslugjald var lagt fram var ljóst að nauðsynlegt væri að gjaldtaka samkvæmt lögunum yrði endurskoðuð reglulega sem og hvaða vörur skyldu bera úrvinnslugjald enda er gert ráð fyrir því í 2. mgr. 4. gr. laganna að svo skuli vera. Í því ákvæði er kveðið á um að umhvrh. leggi fram, að fenginni tillögu stjórnar Úrvinnslusjóðs, tillögu til fjmrh. um breytingar á fjárhæðum úrvinnslugjalds, álagningu skilagjalds og nýjar gjaldskyldar vörur og að fjmrh. flytji frv. á Alþingi um fjárhæðir úrvinnslugjalds.

Eins og rakið er í greinargerð með frv. þessu eru með því lagðar til fimm breytingar á lögum um úrvinnslugjald. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar vegna veiðarfæra þar sem bætt er við nýjum viðauka um veiðarfæri og fjárhæðum vegna þessa vöruflokks. Einnig er lagt til að gjaldtöku vegna veiðarfæra verði frestað um eitt ár þar sem komið hefur í ljós að lengri tíma þarf til að undirbúa framkvæmd þessarar gjaldtöku.

Í öðru lagi er lögð til breyting á fjárhæðum úrvinnslugjalds á tiltekna vöruflokka. Að fenginni reynslu hefur stjórn Úrvinnslusjóðs gert tillögu til umhvrh. að breytingu úrvinnslugjalds í nokkrum vöruflokkum til þess að ná því markmiði laganna að hver uppgjörsflokkur standi undir sér og sé fjárhagslega sjálfstæður, sbr. ákvæði 3. og 4. gr. laga um úrvinnslugjald. Tillögur að breytingum á fjárhæðum úrvinnslugjalds eru grundvallaðar á þeirri meginreglu að ná skuli jöfnuði í afkomu hvers vöruflokks á næstu fimm árum.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að fella út tollskrárnúmer til gjaldtöku og bæta öðrum við. Er sú tillaga sem fyrr byggð á tillögu Úrvinnslusjóðs til umhvrh.

Í fjórða lagi er lagt til að álagningu úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir verði frestað enda krefst sú álagning töluverðrar undirbúningsvinnu áður en hægt er að hefja gjaldtöku á þessa vöruflokka, m.a. vegna þess hve víða pappírs-, pappa- og plastumbúðir koma fyrir í vöruframleiðslu og innflutningi.

Loks er í fimmta lagi lagt til að bifreiðar sem undanþegnar eru bifreiðagjaldi skv. 4. gr. laganna beri úrvinnslugjald einu sinni á ári í stað tvisvar eins og er samkvæmt núgildandi lögum. Úrvinnslugjaldið verður óbreytt, eða 1.040 kr. á ári, en verður innheimt einu sinni á ári í stað tvisvar miðað við tillöguna sem fram kemur í frv. Lagt er til að gjalddagi verði 1. júlí vegna þessara bifreiða.

Verði frv. þetta óbreytt að lögum má ætla að tekjur af úrvinnslugjaldi og spilliefni hækki um tæpar 33 millj. kr. á ári frá því sem þær annars hefðu orðið. Á móti kemur að áætluð 30 millj. kr. álagning á veiðarfæri frestast um eitt ár og áætluð 320 millj. kr. álagning á umbúðir frestast ótímabundið, eða þar til ný ákvörðun liggur fyrir hvað þessar vörur varðar.

Áhrifin á ríkissjóð eru helst þau að á meðan frestað er upptöku úrvinnslugjalds á pappírs-, pappa- og plastumbúðir er líklegt að á móti minni umsýslukostnaði verði árlegar tekjur ríkissjóðs af 0,5% umsýslugjaldi um 1,6 millj. kr. lægri en þær hefðu orðið að óbreyttum lögum.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. efh.- og viðskn. og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.