Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:05:32 (2663)

2003-12-04 16:05:32# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 2. minni hluta JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar tveir aðilar gera samkomulag eru báðir staddir við borðið. Finnst hv. þm. að verið sé að standa við samkomulag ef ríkisstjórn og meirihlutaflokkar á Alþingi breyta einhliða með lagafrv. því samkomulagi sem gert var? Er það að standa við samkomulagið? Ekki að mínu mati.

Auðvitað hefur ríkisstjórnin þingmeirihluta til þess að gera það sem henni sýnist. En vinnubrögð af þessu tagi, samningur sem gerður er --- reyndar rétt fyrir kosningar þegar Framsfl. var í 6--8% eða hvað það nú var --- og allir fögnuðu, að nú á skyndifundi í gær, eftir því sem hér hefur verið tjáð, breytir ríkisstjórnin og þingflokkar meiri hlutans þessu einhliða í þá veru sem við höfum ekki enn séð.