Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 16:06:43 (2664)

2003-12-04 16:06:43# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kom víða við í ræðu sinni og vildi gera öllum mjög gott. Meðal annars kom hv. þm. inn á þann skort á hjúkrunarrýmum sem væri úti á landsbyggðinni.

Þegar vistunarmatsskrá heilbrrn. er skoðuð, þar sem haft er samband við yfir 40 sveitarfélög til að athuga hvar vöntun sé á hjúkrunarrýmum, kemur í ljós að í Reykjavík eru 324 í brýnni eða mjög brýnni þörf, á Akureyri 28. Þegar litið er til hinna smærri byggða eru á flestum stöðunum innan við fimm og á mörgum stöðum engin þörf.

Mér finnst að hv. þm. þurfi að athuga sinn gang þegar hann kemur hér með fullyrðingar um að það sé stórleg vöntun á hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni.

Hins vegar er það svo að verið er að taka í notkun um þessar mundir og fram að 1. júní, 160 rými á höfuðborgarsvæðinu til þess að mæta þeim stóra vanda sem er hér í Reykjavík m.a. vegna einstaklinga sem hafa flutt utan af landi til Reykjavíkur.