Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 17:51:04 (2678)

2003-12-04 17:51:04# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Samkvæmt niðurstöðutölum í fjárlagafrv. sem hér eru til umræðu og varða fjármagn til vegagerðar er nauðsynlegt að færa niður fjárveitingar til nokkurra verkefna í vegagerð á árinu 2004. Lækkun er á fjárveitingum í Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmi um 300 millj. kr. í hverju kjördæmi, samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja og ég mun gera grein fyrir, og í Suðvestur- og Reykjavíkurkjördæmum samtals um 421 millj. kr.

Ég minni á að samgönguáætlun gerði ráð fyrir tæplega 9 milljörðum kr. til stofnframkvæmda á árinu 2004.

Við endurskoðun á samgönguáætlun á næsta ári verður gerð breyting til samræmis við fjárlög, eins og eðlilegt er og venja er. En samgönguáætlun --- í þessu tilviki veg\-áætlunarhluti samgönguáætlunar --- er að jafnaði aðlagaður þeim niðurstöðum sem fjárlög fela í sér. Ég vil hér á eftir gera stuttlega grein fyrir hvernig lagt er til að þessari frestun verði hagað en síðan kemur hún að sjálfsögðu til umræðu og meðferðar í þinginu á næsta ári og til meðferðar í samgn.

Gert er ráð fyrir því að á liðnum Þjónusta verði frestað 216 millj. kr. Meginhluti þessarar upphæðar kemur á liðnum Vetrarþjónusta eða 198 milljónir. Hið hagstæða tíðarfar yfirstandandi árs gerir það að verkum að töluverður afgangur verður á fjárveitingum þessa árs sem unnt er að láta ganga upp í þann halla. Lagt er til að á liðunum Þjónustusvæði, Brýr og veggöng og Vegmerkingar og vegbúnaður verði frestað 18 millj. kr.

Liðurinn Rannsóknir lækkar um 5 millj. kr.

Af liðnum Viðhald verður frestað samtals 50 millj. kr. sem dreifist á alla liði viðhalds aðra en Endurnýjun malarslitlaga. Við það er miðað að þrátt fyrir frestanir komi ekki til lægri upphæð til neins liðar en er á yfirstandandi ári.

Af Stofnkostnaði er gert ráð fyrir að frestað verði fjárveitingum og þar með framkvæmdum fyrir samtals 1.551 millj. kr. sem skiptist á eftirfarandi framkvæmdir svo sem ég mun gera stuttlega grein fyrir:

Framkvæmdir við Gjábakkaveg, þar er um að ræða frestun upp á 50 millj. kr. Eftir sem áður verða 150 millj. kr. af fjárveitingum 2003 og 2004 þar til ráðstöfunar. Nú er unnið að gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum á þessari vegarlagningu og sýnilegt að ekki verður tæknilega unnt að bjóða verkið út fyrr en á síðari hluta næsta árs þannig að nægjanlegar fjárveitingar verða til þess að setja það verk af stað.

Hvað varðar Suðurstrandarveg þá er gert ráð fyrir að þar verði 400 millj. kr. til ráðstöfunar til framkvæmda á árinu 2004. Það er uppsöfnuð fjárveiting sem er hins vegar lækkuð um 250 millj. kr. frá þessu ári og samkvæmt því sem samgönguáætlun gerir ráð fyrir að verði á næsta ári þannig að hægt er að setja það verk af stað. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum er hjá Skipulagsstofnun til úrskurðar. Unnt ætti að vera að bjóða út fyrsta áfanga verksins um mitt næsta ár og eins og fyrr greinir eru 400 millj. kr. þar til ráðstöfunar.

Breikkun Reykjanesbrautar milli Fífuhvammsvegar og Kaplakrika hefur verið í undirbúningi. Þar verða til umráða um 700 millj. kr. eftir 100 millj. kr. lækkun. Undirbúningur verksins hefur tekið mun lengri tíma en gert var ráð fyrir en það er vonast eftir og verður væntanlega unnt að bjóða það út fljótlega eftir næstu áramót. Það verður hægt að vinna fullum fetum að breikkun Reykjanesbrautarinnar frá Fífuhvammsvegi að Kaplakrika fyrir þær 700 millj. kr. sem þar eru til ráðstöfunar.

Eins og fram kom í umræðum í gær vegna fyrirspurnar þá eru ríflegar fjárveitingar til færslu Hringbrautar. Þar verða til ráðstöfunar á næsta ári til framkvæmda um 600 millj. kr. þrátt fyrir lækkun á fjárveitingu um 100 millj. kr. Það er stefnt að útboði snemma á næsta ári á færslu Hringbrautarinnar og gert ráð fyrir því að verkið verði unnið á árinu 2004 og 2005 eins og ýmsir hér inni þekkja mætavel að lengi hefur staðið til að fara í. Þannig að það eru nægjanlegir fjármunir til þess að á næsta ári að vinna fullum fetum í samræmi við þessa áætlun.

Á gatnamótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar var gert ráð fyrir og er gert ráð fyrir mislægum gatnamótum. Þar er gert ráð fyrir að fresta framkvæmdum. Sú upphæð nemur um 200 millj. kr. Nú er verið að bjóða út verkhönnun þessa verks og sýnilegt að það verður ekki tilbúið til útboðs fyrr en eftir mitt næsta ár og fari fram sem horfir verður á næsta ári hægt að bjóða þau mislægu gatnamót út þegar endanleg verkhönnun liggur fyrir.

Breikkun Vesturlandsvegar frá Víkurvegi að Skarhólabraut í Mosfellsbæ er í undirbúningi. Skýrsla um mat á umhverfisáhrifum er hjá Umhverfisstofnun til úrskurðar og ósennilegt að verkið verði tilbúið til útboðs fyrr en um mitt næsta ár. Þetta er mjög umfangsmikil breyting, þessi breikkun, og margt þar viðkvæmt sem þarf að taka tillit til. Engu að síður verða þar 420 millj. kr. til ráðstöfunar og ætti að vera hægt að vinna með eðlilegri framvindu að breikkun Vesturlandsvegarins þar upp eftir þrátt fyrir að fjárveitingin sé lækkuð frá samgönguáætlun um 21 millj. kr.

Hringvegur frá Borgarfjarðarbraut að Hrauná, þar var gert ráð fyrir undirbúningsfjárveitingu á næsta ári sem er lækkuð um 40 millj. kr. en meginframkvæmdafjárveitingin er á vegáætlun árið 2005--2006 þannig að það er hægt að undirbúa það verk þrátt fyrir þessa lækkun.

Vestfjarðavegurinn milli Bjarkarlundar og Flókalundar, þar hefur verið unnið á þessu ári. Þar er mikil undirbúningsvinna og hönnun í gangi. Þingmenn Norðvesturkjördæmis hafa með vegamálastjóra farið yfir þau framkvæmdaáform. Það hefur verið sett í þann farveg að vegurinn við Þorskafjörð og vestur um er settur í umhverfismat og skoðaðar þær leiðir sem færar eru. Þar eru allverulegar fjárveitingar til staðar en það er ljóst að ekki verður hægt að hefja þar framkvæmdir, vegna umhverfismatsins, fyrr en seint á næsta ári þannig að við gerum ráð fyrir því að nýta okkur þá stöðu og fresta 150 millj. kr. fjárveitingu til þess verks.

[18:00]

Hringvegur um Norðurárdal í Skagafirði er í undirbúningi. Þar eru mjög mikilvægar framkvæmdir. Mat á umhverfisáhrifum fyrir þetta verk var kært til umhvrh. og ekki liggur fyrir framkvæmdaleyfi vegna þess verks. Gert er ráð fyrir að bjóða fyrsta áfanga þess út á næsta ári en samkvæmt vegáætlun eru fjárveitingar 2005 aðallega og 2006. En þarna verður hægt á sem nemur 50 millj. kr. Þarna liggur ekki fyrir framkvæmdaleyfi en Vegagerðin vinnur fullum fetum að undirbúningi þessa og vonast er til þess að hægt verði að setja seint á næsta ári af stað það verk.

Innsveitarvegur við Akranes. Þar var gert ráð fyrir framkvæmdum við gatnamót sem þarf að hægja á sem nemur 20 millj. kr.

Drangsnesvegur hefur fjárveitingu á þessu ári og árunum 2004 og 2005 þannig að hægt verður að setja þær framkvæmdir af stað. En frestað verður 10 millj. kr. þar. Engu að síður verður hægt að setja það verk af stað sem allstórt á mælikvarða þess svæðis.

Vatnsdalsvegur hefur fjárveitingu á næsta ári. Gert er ráð fyrir sama framgangsmáta og með Drangsnesveg, þ.e. að þrátt fyrir frestun upp á 30 millj. kr. verður hægt að setja það verk af stað með útboði.

Hringvegur, Biskupsháls--Skjöldólfsstaðir. Það er búið að bjóða þann kafla út með bundnu slitlagi að enda bundins slitlags í Langadal, þ.e. á Háreksstaðaleiðinni. Þrátt fyrir 100 millj. kr. frestun þar er gert ráð fyrir því að hægt sé að standa að fullu við skuldbindingar við verktaka vegna þessa verks sem, eins og ég fyrr sagði, hefur þegar verið boðið út.

Norðausturvegur, Katastaðir--Krossavík. Það er ný Öxarfjarðarheiðarleið. Hér er um að ræða byrjunarfjárveitingu samkvæmt samgönguáætlun í nýjan veg í stað núverandi vegar um Öxarfjarðarheiðina. Þar er unnið að gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum og sýnilegt að því ferli ásamt verkhönnun verður ekki lokið fyrr en seint á næsta ári og því talið fært að fresta 100 millj. kr. fjárveitingu þar, en vonast er til að hægt verði að koma því verki af stað ef umhverfisvinnsluferlið gengur eðlilega fyrir sig. Ég á ekki von á öðru en að svo verði.

Norðfjarðarvegur, Reyðarfjörður--Eskifjörður. Þar er fjárveiting og við gerum ráð fyrir að að haldið verði áfram með endurbyggingu eldri vegar. En þar er gert ráð fyrir því að fresta 70 millj. kr. framkvæmd.

Hólmatunguvegur. Þar er gert ráð fyrir framkvæmdum. Þar eru innstæður þannig að unnið verður á þeirri leið fyrir 65 millj. kr. þrátt fyrir 30 millj. kr. frestun þar.

Á jarðgangaliðnum, sem er nú allstór, er gert ráð fyrir að færa niður 150 millj. kr. Eftir sem áður verður þó hægt að standa við allar skuldbindingar við verktaka samkvæmt samningum vegna jarðganga Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar.

Hvað varðar brýr þá er gert ráð fyrir því að fresta framkvæmdum við brú á Brúará hjá Spóastöðum nærri Skálholti og nemur sú frestun 80 millj. kr.

Samkvæmt lögum um samgönguáætlun á að endurskoða vegáætlun á Alþingi 2004 og 2005 og á þá að ganga frá áætlun fyrir árin 2005--2008. Við þá endurskoðun þarf að gæta þess að þau verk sem hér á undan hefur verið gerð grein fyrir að frestist fái þar það fjármagn til baka sem nú verður frestað vegna framkvæmda. En það er alveg ljóst að langflest þeirra verka, sem ég hef nú gert grein fyrir að þarf að hægja á, eru þannig sett að vegna undirbúnings er í raun ekki hægt að koma þeim af stað þannig að þetta fjármagn nýtist. Þetta er því viðráðanlegra en oft hefur áður verið þegar þurft hefur að stöðva verk vegna svipaðra aðstæðna.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir þessum nauðsynlegu aðgerðum sem tengjast fjárlagagerðinni. Ég taldi eðlilegt og nauðsynlegt að gera þinginu grein fyrir þessu nú við afgreiðslu fjárlaga þannig að mönnum væri alveg ljóst að hverju þeir ganga þegar kemur til vinnu við endurskoðun samgönguáætlunarinnar á næsta ári.