Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 20:58:07 (2710)

2003-12-04 20:58:07# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[20:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Eingöngu til að leiðrétta villu í máli hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar varðandi álit umhvn. til fjárln. Ég var með sérálit til fjárln. í þessu efni. Það varðar safnliði umhvrn. og úthlutanir til frjálsra félagasamtaka.

Það er alveg ljóst að frjáls félagasamtök eiga að njóta styrkja frá hinu opinbera. Það er líka alveg ljóst að slík úthlutun þarf að vera fagleg og ígrunduð og það skiptir verulegu máli að umhvrn. í þeirri úthlutun sem því er treyst fyrir standi við þá samstarfsyfirlýsingu sem gerð hefur verið milli náttúruverndarsamtaka og ráðuneytisins.

Blái herinn sem um ræðir og hv. þm. nefndi í máli sínu fellur fyrir utan þau náttúruverndarsamtök sem njóta styrkja frá hinu opinbera samkvæmt samstarfsyfirlýsingunni. Hann getur hins vegar fengið stuðning frá ráðuneytinu í gegnum óskipta liði þess.