Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:03:35 (2715)

2003-12-04 21:03:35# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að eðli málsins samkvæmt verði alltaf ágreiningur og alltaf mismunandi sjónarmið um það hver ætti að vera hin eina rétta stefna í rekstri svo flókins og stórs fyrirtækis eins og Landspítalans þannig að það sé ekki hneykslunarefni neins að ekki hafi verið algjör samstaða um það.

Ég býst samt við að menn hafi í reynd mjög mikinn og einbeittan vilja til þess að geta fjallað um þetta á hlutlægan hátt. Við skulum átta okkur á því að þessi umræða um heilbrigðismálin er ekki alíslensk. Þessi sama umræða á sér stað í öllum Evrópuríkjunum, nákvæmlega þessi sama umræða.

Niðurstaðan hjá flestum sem um heilsuhagfræðina hafa fjallað er sú að leiðin til að komast hjá þessum gríðarlegu kostnaðarhækkunum liggi í því að forða hátæknisjúkrahúsunum frá innstreyminu, frá þrýstingnum. Það gerum við best með því að tryggja og styðja heilsugæsluna í landinu.