Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:34:38 (2720)

2003-12-04 21:34:38# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:34]

Kolbrún Halldórsdóttir (frh.):

Virðulegur forseti. Ég var komin nokkurn veginn að niðurlaginu í ræðu minni en það lýtur að tillögu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs á þskj. 564. Þar er um að ræða Þjóðminjasafn Íslands, safnasjóð og húsasafn Þjóðminjasafnsins sem á sér athvarf undir fjárlagaliðnum Menningarstofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Ég fjallaði ítarlega um það í ræðu minni við 2. umr. um fjárlög að Þjóðminjasafn Íslands væri enn einu sinni hunsað að því leytinu að óskir safnsins um að fá fjármuni í gegnum fjárlög ríkisins til þess að standa straum af kostnaði við grunnsýningu þess, nýja grunnsýningu sem kemur til með, skulum við vona, að prýða sali endurnýjaðs safnahúss við Suðurgötu þegar það verður opnað á vordögum 2004. En það er alveg ljóst að fjárln. og ríkisstjórn bera ekki hag þessarar sýningar fyrir brjósti því að Þjóðminjasafnið fær ekki neina fjármuni til þess að kosta þessa sýningu. Og engri þeirra spurninga sem ég bar fram við 2. umr. fjárlaganna hverju þetta sætti, var svarað. Nei, menn þegja þunnu hljóði og láta eins og ekkert hafi verið sagt. Ég tel að hér við lokaumræðu fjárlaga eigi starfsfólk Þjóðminjasafnsins heimtingu á því að fá að vita það frá hv. fjárln. hverju þetta sæti. Til hvers ætlast fjárln.? Eiga innréttingarnar að vera það eina sem sýnt verður í safnahúsinu við Suðurgötu þegar það verður opnað næsta vor, eða á ekki að opna Þjóðminjasafnið næsta vor? (Gripið fram í.) Hvort er það sem fjárln. ætlast til? Annaðhvort hlýtur það að vera því þær 47 milljónir sem Þjóðminjasafnið hefur óskað eftir í grunnsýninguna eru ekki til reiðu fyrir safnið. Þannig að það er alveg ljóst að hér er stjórn fjárln. og ríkisstjórnarinnar slík að við eigum heimtingu á skýringu. Hvernig stendur á því að Þjóðminjasafnið fær ekki fjármuni til að ljúka við grunnsýningu safnsins?

Niðurlæging Þjóðminjasafnsins er orðin nógu mikil, hafandi verið lokað í sex sumur. Niðurlæging þjóðarinnar, vil ég meina, að hafa ekki getað boðið erlendum ferðamönnum, hundruðum þúsunda saman að skoða þjóðminjaarfinn okkar í safnahúsinu. --- Og nú gengur hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln. á dyr, ekki sé ég hv. formann fjárln. og ekki er hæstv. menntmrh. hér, þannig að sjálfsagt á ég ekki eftir að fá svör við þessum spurningum mínum. En ég verð þó að láta þær hljóma í þessum sal því það er ekki forsvaranlegt að svona sé komið fram við eina öflugustu menningarstofnun þjóðarinnar. Hún er hunsuð og hún er þögguð og það eru engar skýringar. Þetta er ekki sæmandi, virðulegur forseti. Og eins og ég segi, það er ekki furða þó að manni renni í skap við þetta skeytingarleysi stjórnvalda og þá ótrúlega háværu þögn sem hér ríkir.