Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 23:45:03 (2729)

2003-12-04 23:45:03# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[23:45]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu að sinni, við erum búin að fjalla allítarlega um þetta fjárlagafrv. og ég hef áður vísað í málflutning 1. talsmanns Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Hann hefur dregið upp megindrættina í þessu frv. og áformum ríkisstjórnarinnar en eins og fram hefur komið stefnir hún að því að draga úr samneyslunni á komandi ári og komandi árum. Það er gert ráð fyrir því að framlag til samneyslunnar aukist að hámarki um 2% en á sama tíma er gert ráð fyrir því að þjóðarframleiðsla aukist um 4%. Með öðrum orðum er verið að breyta þarna hlutföllum, draga úr vægi samneyslunnar.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fór mikinn í ræðustól fyrr í kvöld og talaði um mikilvægi þess að skapa hér kraftmikið samkeppnissamfélag og ekki er ég andvígur því. En það gerum við hins vegar m.a. með því að byggja hér upp öflugt velferðarkerfi, öflugt menntakerfi og heilbrigðiskerfi og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.

Ég þarf að gera eina smáleiðréttingu á staðhæfingu sem ég setti fram fyrr í kvöld. Ég taldi að ríkisstjórnin ætlaði að spara 170 millj. á kostnað atvinnulauss fólks en sem kunnugt er eru tillögur um það frá hendi ríkisstjórnarinnar að hafa 10.722 kr. af atvinnulausu fólki með því að greiða ekki atvinnuleysisbætur fyrir þrjá fyrstu dagana. Misskilningur minn byggist á staðhæfingum sem fram koma í fjárlagafrv. þar sem segir á bls. 374 eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs lækki um 170 millj. kr. vegna áforma um að lögum verði breytt á þann veg að í stað þess að bætur greiðist frá fyrsta skráningardegi verði ekki greitt fyrir fyrstu þrjá dagana o.fl.``

Það var þetta ,,o.fl.`` sem ég gleymdi, ofreiknaði þessa tölu og taldi að menn væru að hafa þarna af atvinnulausu fólki 170 millj. kr. Staðreyndin er sú að það eru um 60--70 millj. sem ríkisstjórnin sparar á kostnað atvinnulauss fólks.

Ég beindi spurningum til hæstv. fjmrh., hverju hann svaraði fullyrðingum embættismanna félmrn. í félmn. þegar þetta mál kom til umfjöllunar þar um að það væri krafa frá fjmrn., frá hæstv. fjmrh., að þessir fjármunir yrðu hafðir af atvinnulausu fólki. Við stóðum sum í þeirri trú að þetta væri vegna einhverra kerfisbreytinga og menn leituðu vítt um völl, spurðu hvort þetta fyrirkomulag væri við lýði annars staðar á Norðurlöndunum eða í Evrópu eða annars staðar, hvað vekti fyrir mönnum. Svörin sem við fengum voru þau að þarna væri tekjulind fyrir ríkissjóð, að hafa þessa peninga upp úr vösum atvinnulauss fólks. Ekki fannst mönnum það stórmannleg hugsun.

Hér fór fram nokkur umræða um menntamálin og þann halla sem er á rekstri menntastofnana í landinu, framhaldsskóla, háskólanna, og það var vikið að sjúkrahúsunum. Það kemur fram í minnihlutaálitum, ég vék að og vísaði í minnihlutaálit hv. þm. Jóns Bjarnasonar þar sem fram kemur að ef Landspítalinn -- háskólasjúkrahús á að viðhalda sambærilegri þjónustu á komandi ári og gert er í ár þarf 1.400 millj. til viðbótar því sem sjúkrahúsinu er ætlað.

Þá er það auðvelt mál, svona í orði, að koma í ræðustól, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárln., gerði og segja að við verðum að standa við bakið á læknum þegar þeir forgangsraða og skera niður. Þetta var almenn yfirlýsing af hans hálfu. Ég beindi spurningu til hans sem ég fékk aldrei nein svör við, spurði hvað hann vildi segja við yfirmenn eða stjórnendur öllu heldur --- nota helst aldrei þessi hugtök, ,,yfirmaður`` eða ,,undirmaður`` --- við stjórnendur sjúkrahússins, t.d. varðandi áform eða hugmyndir sem nú eru uppi um að skera niður 100 millj. kr. í bráðaþjónustunni. Hvað á að segja við fólk sem snýr sér til bráðaþjónustunnar? Á að vísa því frá? Hvað á að segja við þetta fólk?

Síðan er vanhugsuð þessi nálgun sem við heyrðum, að telja það fortakslaust af hinu illa þegar útgjöld sjúkrahúsa aukast. Það getur hreinlega verið þjóðhagslega mjög til bóta, a.m.k. var fögnuður í hjarta mínu þegar ég sá fréttir sjónvarpsins í kvöld um að níu af hverjum tíu nýrnaaðgerðum yrðu framvegis framkvæmdar hér innan lands. Stórkostlegur hagnaður og sparnaður fyrir þjóðarbúið, til hagsbóta fyrir þá sjúklinga sem njóta lækninga innan lands að þurfa ekki að halda utan. Það hefur engu að síður það í för með sér að útgjöld viðkomandi sjúkrahúss aukast.

Hún er vandfundin, formúlan, og það er vandfundið tæki til að stýra fjármunum innan sjúkrahúss. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að læknar yrðu að forgangsraða. Ég er algerlega ósammála því. Ég tel að læknar eigi að vera harður þrýstihópur fyrir hönd sjúklinga. Síðan er það annarra að reyna að halda utan um pyngjuna. Þarna verða núningur og árekstrar og það er ekkert óeðlilegt við það, það er ekkert slæmt við það. Það er eðlilegt, fullkomlega eðlilegt, þannig að við eigum ekki að búa til kerfi sem er án núnings, sem er án átaka. Ef læknar leggjast á sveif með peningalegum stjórnendum um að forgangsraða og ef um það ríki fullkomin sátt er það nokkuð sem ég tel ástæðu til að hafa áhyggjur af. Ég tel það ekki eðlilegt.

Um þetta má náttúrlega hafa mörg orð og ekki hægt að afgreiða slíkt í fáum orðum enda ætla ég ekki að reyna það, kvaddi mér hljóðs hér í kvöld til að eiga orðastað við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson. Hann er ekki á staðnum og ég mun finna tækifæri síðar til að eiga við hann orðaskipti.

Ég vil þó vekja máls á öðru atriði og það snýr að Háskóla Íslands. Það var verið að opna náttúrufræðihús háskólans fyrir fáeinum dögum og þangað flytja nokkrar deildir spítalans, jarðfræði og landafræði, Norræna eldfjallastöðin og líffræðin. Þetta hús er mjög glæsilegt, það hefur kostað mjög mikla peninga, en það sem á skortir núna er rekstrarfé. Það er af skornum skammti en þó vantar miklu fremur fé til tækjakaupa. Þeir fjármunir eru ekki til, það verður að nýta þau tæki sem voru í húsnæðinu þar sem þessar deildir voru áður til húsa, t.d. á Grensásvegi 12. Eins og fram hefur komið við umræðuna um fjárlög stendur til að selja það húsnæði. Mér hefði fundist eðlilegt og tek undir hugmyndir sem fram hafa komið þar að lútandi að hin nýja náttúrufræðideild eða jarð- og landfræði og þessar deildir og stofnanir sem flytja í náttúrufræðihúsið fengju sem heimanmund til tækjakaupa andvirðið af Grensásvegi 12. Mér fyndist það vera eðlilegur hlutur og vil taka undir þær hugmyndir sem fram hafa komið í þá veru.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Við höfum sett fram okkar almennu sjónarmið varðandi fjárlög fyrir árið 2004. Ég tek undir gagnrýni hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem er okkar helsti talsmaður í fjárlagamálunum. Einstakir þingmenn þingflokksins hafa komið inn á tiltekna málaflokka og læt ég yfirferð minni um þetta mál lokið.