2003-12-05 00:18:25# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[24:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki hægt að tala um lagabreytingar á Alþingi sem gerræðislegar ákvarðanir. Það eru ákvarðanir sem Alþingi hefur tekið í samræmi við þingsköp sem hér gilda.

Varðandi spurningu þingmannsins, um hvernig tiltekin tillaga í fjárlagafrv. eða fylgifrumvarpi þess er til komin, þá er það eiginlega fáránleg spurning. Það segir sig sjálft að ríkisstjórnin öll og stuðningsmenn hennar á Alþingi standa á bak við þá tillögu. Ef það er þannig að einhverjir ráðuneytismenn í tilteknu ráðuneyti saki annað ráðuneyti um aðför eða um að bera ábyrgð á sparnaði sem þeir vilja ekki sjálfir bera ábyrgð á þá falla slík ummæli auðvitað marklaus niður.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þá sálma. Ég veit ekki hvað mönnum hefur farið í milli í þingnefnd en ég veit hvað okkur félmrh. hefur farið í milli, hvað sagt hefur verið í ríkisstjórninni um þessi mál og hvað sérstök nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar, sem var að undirbúa tillögur í tengslum við fjárlagagerðina í sumar, lagði til. Þetta var einmitt eitt af því.

Mér finnst þetta ekki snerta kjarna málsins. Satt að segja er það fyrir neðan virðingu hv. þm. að elta uppi ummæli af þessu tagi í umræðunni.

Auðvitað má deila um innihald frv. Skárra væri það nú ef svo væri ekki. Við erum að tala um 275 milljarða kr. eða þar um bil. Auðvitað má deila um það hvernig einstökum liðum er fyrir komið þó að við séum vafalaust sammála um langflest atriði í þessu frv. öll hér í þessum sal. En til þess hafa menn notað umræðuna að gera grein fyrir mismunandi viðhorfum í þessu efni eins og eðlilegt er.