Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:43:27 (2743)

2003-12-05 10:43:27# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það var mikil samgöngubót að fá göngin undir Hvalfjörð. Gjaldtakan var réttlætt með því annars vegar að það væri annar gjaldfrír valkostur fyrir hendi á sömu leið, þ.e. að fara fyrir Hvalfjörð. Hin réttlætingin var sú að þetta væri framkvæmd sem ákveðnu hlutafélagi hefði verið falið að annast, það hefði tekið til þess fjármagn og fengi heimild til þess að innheimta gjald uns göngin hefðu verið greidd upp og þá rynnu þau til ríkisins endurgjaldslaust.

Í sjálfu sér má velta fyrir sér í tengslum við framkvæmdir við vegagerð hvort almennt eigi að fara þessa leið eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar að það sé alveg hugsanlegt og megi alveg skoða það að taka gjald fyrir einstakar afmarkaðar vegaframkvæmdir ef, eins og ég segi, um annan nærtækan valkost er að ræða og að hann sé raunverulegur valkostur. En þá er kannski alveg eins rétt að ríkið sjálft geri það. Ríkið sjálft hefur aðgang að ódýrara fjármagni og ber ábyrgð á heila dæminu og getur hvenær sem er breytt forsendum ef það vill. Mikilvægt er að þjóðvegirnir séu hluti af almannaþjónustukerfinu. Á Vesturlandi eru samgöngurnar til Reykjavíkur einmitt mikilvægar. Hér er stjórnsýslan. Hér eru menntastofnanirnar. Hér eru hátæknisjúkrahúsin, innflutningshafnirnar og atvinnusvæðið. Þess vegna tel ég mikilvægt að það eigi að kanna leið til þess að lækka gjaldið í gegnum Hvalfjarðargöngin. Fyrir mann sem fer t.d. núna 40 ferðir á mánuði kostar það 23.100 kr. að kaupa 40 ferða miða.