Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 12:00:24 (2760)

2003-12-05 12:00:24# 130. lþ. 43.10 fundur 314. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (búseta, EES-reglur) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[12:00]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.

Þann 26. júní 2001 hóf Eftirlitsstofnun EFTA skoðun á ákvæðum laga um Lánasjóðs íslenskra námsmanna, nr. 21/1992. Tilefnið var álit umboðsmanns Alþingis í málinu nr. 3042/2000 er varðaði rétt námsmanns frá Finnlandi til láns úr LÍN. Eftir bréfaskipti við menntamálaráðuneytið komst ESA að þeirri niðurstöðu að ákveðnir þættir íslenskra laga um rétt til námslána brytu gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Nánar tiltekið var um að ræða 3. og 4. mgr. 13. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Í ljósi afstöðu ESA hefur menntamálaráðuneytið um nokkurt skeið unnið að gerð tillögu að frv. um breytingu á umræddum ákvæðum sem kæmi til móts við þær athugasemdir sem eftirlitsstofnunin hefur gert við áðurnefnda 13. gr. Ráðuneytið telur að breytingin sem hér er lögð til uppfylli að öllu leyti kröfur EES-samningsins.

Reglugerð ráðsins nr. 1612/68 um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins var lögfest hérlendis með lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins. Telst reglugerðin í heild sinni, með þeim breytingum sem lögin tilgreina, hluti af íslenskum landsrétti. Réttur ríkisborgara EES-ríkja til námslána byggist einkum á ákvæðum 7. og 12. gr. reglugerðarinnar, sbr. 10. gr. Verður því að telja að viðeigandi réttarheimildir er lúta að námslánarétti ríkisborgara ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu séu þegar fyrir hendi í íslenskum rétti. Ágalli núgildandi 3. og 4. málsgreinar 13. gr. laga nr. 21/1992 felst í því að hún þrengir í sérlögum réttindi sem byggjast á almennum lögum með hætti sem ekki samræmist skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Þær breytingar sem lagðar eru til á 13. gr. laga nr. 21/1992 eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi. Texti 3. mgr. greinarinnar verði felldur brott en hann inniheldur eftirfarandi skilyrði fyrir námslánarétti sem ekki verða talin samræmast skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum:

1. ríkisborgari EES-ríkis skuli hafa starfað í fimm ár á Evrópska efnahagssvæðinu;

2. slíkur ríkisborgari EES-ríkis skuli vera launamaður, þ.e. ekki sjálfstætt starfandi;

3. slíkur ríkisborgari EES-ríkis skuli fortakslaust stunda starfstengt nám;

4. maki slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli stunda starfstengt nám;

5. börn slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli fortakslaust vera yngri en 21 árs;

6. börn slíks ríkisborgara EES-ríkis skuli stunda starfstengt nám.

Í stað hins brottfellda texta er lagt til að komi ein ný málsgrein með tilvísun í aðrar réttarheimildir er gera tæmandi grein fyrir réttarstöðu ríkisborgara EES-ríkja er starfa hérlendis hvað varðar námslánarétt.

Í öðru lagi er breyting gerð á ákvæði 4. mgr. þannig að áskilnaður um eins árs lögheimili áður en nám hefst verði breytt í áskilnað um tveggja ára samfellda fasta búsetu hér á landi eða fasta búsetu í þrjú ár af síðustu tíu árum. Með fastri búsetu er átt við búsetu eins og hún er skilgreind í 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990. Ákvæði um að íslenskir ríkisborgarar haldi að jafnaði námslánarétti sínum í tvö ár eftir að þeir flytja lögheimili sitt til annars lands er fellt brott, enda er það óþarft í ljósi breytingarinnar á 4. mgr. Aukinheldur verður ekki talið að slík mismunun á stöðu Íslendinga og ríkisborgara annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, sem er í núgildandi 4. mgr. 13. gr., samræmist ákvæðum EES-samningsins.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið efni þessa frumvarps í meginatriðum. Ég bendi á að í greinargerð frumvarpsins er að finna allítarlegt yfirlit yfir námslánarétt ríkisborgara EES-ríkja á Íslandi. Ég ætla mér ekki að fara yfir þann texta í ræðu minni heldur vísa ég til greinargerðarinnar.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntmn. og 2. umr.