Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:59:11 (2835)

2003-12-05 15:59:11# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, GAK
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Það er mikill vandi í landbúnaðinum, sérstaklega að því er varðar sauðfjárframleiðsluna, sem keppir við hið svokallaða hvíta kjöt sem hefur stundum upp á síðkastið verið kallað bankakjötið.

Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að það þarf að skoða upp á nýtt fyrirkomulag sauðfjárframleiðslunnar og styrki sem við notum til að greiða með þeirri framleiðslu. Við greiðum jú einnig með mjólkurframleiðslunni og við verðum að fara yfir þessi mál og skoða þau.

Sú tillaga sem við ræðum hér, um að bændur á ákveðnum aldri á þessu tímabili, 2004--2007, þurfi eigi að halda sauðfé til þess að geta haldið óskertum beingreiðslum á sama tíma, er auðvitað bráðabirgðaaðgerð. Ég tel samt sem áður, virðulegi forseti, að þessi tillaga sé til bóta miðað við stöðuna í dag. Ég tel einboðið að við munum styðja hana. Hún getur orðið til þess að draga úr framleiðslunni en jafnframt til að tryggja að eldri bændur hafi eðlilegt lífsviðurværi þó að þeir leggi framleiðsluna af á þessu tímabili.

Mína niðurstöðu fæ ég með því að skoða þessa tillögu út frá málinu eins og það liggur fyrir í heild sinni. Hér er um bráðabirgðaaðgerð að ræða en ég tel að hún sé til bóta og muni frekar létta á málinu en hitt. Það er því alveg ljóst, virðulegi forseti, að gangi þetta mál eftir munu bændur yfir ákveðnum aldri ekki þurfa að halda fé til að geta haldið beingreiðslunum fram til loka búvörusamnings 2007. Ég tel að hér sé verið að opna möguleika sem getur í núverandi ástandi aðeins gert gagn, hann mun tryggja mönnum afkomu sem hafa starfað í þessari grein og bæta þá stöðu sem uppi er í sauðfjárræktinni.

Það breytir hins vegar ekki því, virðulegi forseti, að landbúnaðurinn þarf, eins og ég sagði í upphafi máls míns, endurskoðunar við. Menn þurfa auðvitað að fara að fara í gegnum það í tíma og með góðum fyrirvara hvernig við ætlum að haga þessum málum eftir árið 2007. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið í þessum málum. Þetta er ekki einfalt mál að leysa og ekki einfalt mál að koma þannig fyrir að vel fari.

Við í Frjálsl. höfum lagt til að menn breyti því sem ég kalla beingreiðslur og færi það yfir í búseturstyrki og styrki til landnýtingar. Við horfum til þess að það megi nota jarðir og lönd bænda til annars en sauðfjárframleiðslu eða mjólkurframleiðslu ef því er að skipta. Gera verður mönnum kleift að breyta búskaparháttum eða stunda aðra atvinnu á býlum sínum en jafnframt að geta búið á sveitabýlunum.

Tillaga okkar í Frjálsl. um að tekið verði tillit til þess þegar menn eiga um langan veg að fara til að sækja atvinnu og afla tekna, að það verði frádráttarbært ef menn þurfa að ferðast um langan veg til að stunda atvinnu og megi draga kostnað umfram 120 þús. kr. á ári frá tekjum áður en skattlagt er, er ein af þeim hugmyndum sem við höfum um hvernig skuli draga m.a. úr þessu vandamáli. Sú tillaga er þó alls ekki miðuð við bændur eina og sér heldur almennt fyrir fólk í landinu sem þarf að leggja í mikinn ferðakostnað við að stunda atvinnu sína. Slík heimild mundi vissulega hjálpa til, vel útfærð og sett upp í skattalögin, þegar að því mikla vandamáli kemur að taka á því hvernig við ætlum að haga styrkjum og fyrirkomulagi í landbúnaði til framtíðar.

Ég vildi vekja athygli á tillögu okkar í þessu sambandi vegna þess að ég held að slík tillaga, ef samþykkt yrði, mundi minnka vanda bænda sem sækja atvinnu um langan veg. Slíkt fyrirkomulag er þekkt í nágrannalöndunum, m.a. í Noregi. Við getum því sótt þekkingu þangað að því leyti.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, lýsa yfir stuðningi við þessa tillögu. Ég tel að hún sé til bóta miðað við ástandið. Ég tel einboðið að við leggjum þessu máli lið, að tryggja að eldri bændur geti lagt af búskap, sé samt heimilt að framleiða til eigin nota en haldi beingreiðslunum á þessu tímabili. Þetta mál getur ekki orðið til annars en að liðka fyrir málinu í heild eins og það er vaxið.