Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:42:56 (2976)

2003-12-10 10:42:56# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Seint mun ég taka þátt í því að styðja ríkisstyrkt millilandaflug. Hins vegar er hægt með öðrum hætti að ýta undir það að millilandaflug geti verið reglulega milli staða eins og Akureyrar og útlanda og Egilsstaða og útlanda.

Eitt af því sem hæstv. samgrh. hefur tekist vel upp með er að afla aukins fjármagns til þess að kynna Ísland á erlendri grund. Það er ekki síst vegna þessa í kjölfar atburðanna í september 2001 sem gistinóttum á Íslandi og farþegum til Íslands hefur fjölgað. Ég held að það sem ætti að gera í tilvikum eins og þessum sé að setja aukið fjármagn í að kynna staði eins og Akureyri erlendis og kynna þá möguleika sem felast í ferðum þangað, reyna að nota einstætt umhverfi Akureyrar til þess að laða farþega frá Evrópu. Það er ekki ríkisstyrkur. Það eru ekki sértækar aðgerðir, það eru almennar aðgerðir og ég hvet hæstv. ráðherra til þess að beita sér fyrir slíku.