Verklag við fjárlagagerð

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 11:29:53 (2998)

2003-12-10 11:29:53# 130. lþ. 46.1 fundur 325. mál: #A verklag við fjárlagagerð# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi HHj
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[11:29]

Fyrirspyrjandi (Helgi Hjörvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla þá að byrja á að fagna því að hæstv. forsrh. skuli loks vera mættur til fundarins, ekki nema 50 mínútum of seint og má um hæstv. forsrh. segja eins og aukafjárveitingarnar til Landspítalans að seint koma sumir en koma þó.

Hér er til umfjöllunar fjárlagaferlið sem ég hef verið að kynnast á þessu haustþingi og hefur á köflum verið grátbroslegt. Þannig gerist það á haustmánuðum að fjárln. sendir frá sér auglýsingu í landsmálablöðin, og kannski líka Útvarp Matthildi, þar sem forstöðumenn ríkisstofnana eru sérstaklega boðnir velkomnir að sækja fundi nefndarinnar. Á sama tíma sendir fjmrn. út fyrir hönd ríkisstjórnarinnar bréf til sömu forstöðumanna, og kannski líka nefndrar útvarpsstöðvar, og tilkynnir að forstöðumönnum ríkisstofnana sé stranglega bannað að heimsækja fjárln. Það sýnir hvernig hver höndin virðist vera upp á móti annarri í fjárlagaferlinu og lítið samráð haft í stjórnarmeirihlutanum.

Það er út af fyrir sig áhyggjuefni hvers vegna það er svona mikil leynd og pukur yfir stöðu einstakra stofnana ríkisins og veldur áhyggjum um að fjárlögin séu ekki nægilega nákvæm. Hitt veldur þó meiri áhyggjum, virðulegi forseti, að framkvæmdarvaldið skuli fara með stofnanir ríkisins eins og þær séu einkamál þess. Margar þessara stofnana starfa samkvæmt lögum settum af Alþingi og það er lögbundin skylda opinberra embættismanna að upplýsa þingið ef þannig liggur í málum að þeim er ekki gert kleift að uppfylla þau lög sem sett hafa verið af framkvæmdarvaldinu. Það er alvarlegt ef þeim er meinað það.

Ég kannaði hins vegar sérstaklega hversu langt ríkisstjórnin hefði gengið í því efni að banna stofnunum að tala við fjárln. og kallaði eftir því hvort hingað í Alþingi hefði borist bréf. Í ljós kom að frá forsrn. kom sending til Alþingis þar sem Alþingi er bent á þessa samþykkt ríkisstjórnarinnar og það beðið um að koma því á framfæri við undirstofnanir sínar, þ.e. þá Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis, að þinginu sjálfu sé óheimilt að tala við sína eigin fjárln. og að Ríkisendurskoðun sem starfar sérstaklega með fjárln. sé óheimilt að tala við fjárln. Ég hallast að því að hér hljóti að vera einhver mistök á ferðinni því það er alveg skýrt af stjórnarskrá lýðveldisins að hér er þrískipting ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þegar við skoðum þingskapalögin, nr. 55/1991, er í 2. mgr. 10. gr. alveg skýrt að það er forsn. þingsins sem fer með fjárreiður þess. Við setningu laga um fjárreiður ríkisins var gerð sérstök breyting á lögunum í meðförum þingsins til að tryggja sjálfstæði þess hvað varðar fjárveitingar og inn var sett 21. gr. þeirra laga, sem eru nr. 88/1997. 4. mgr. áréttar að forsn. fer með forræðið í þessu máli, og sömuleiðis 3. gr. laga nr. 86/1997. Ég spyr hæstv. forsrh. hvort hér hafi orðið einhver mistök eða hvaða valdheimildir hann hafi haft til að senda Alþingi þetta erindi.