Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:32:04 (3010)

2003-12-10 13:32:04# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:32]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Meginatriði þessa frv. er að lagt er til að tekin verði upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta. Þá er lagt til að auknir verði möguleikar á því að koma byggðarlögum til aðstoðar við úthlutun sérstakra aflaheimilda vegna óvæntra skerðinga aflaheimilda skipa sem þaðan eru gerð út og landa afla sínum þar. Samhliða þessu er lagt til að á tveimur næstu árum verði dregið úr úthlutun sérstakra aflaheimilda til krókaaflamarksbáta og sérheimildum Byggðastofnunar til úthlutunar aflaheimilda og þær heimildir falli síðan niður að fimm árum liðnum. Að lokum er lagt til að nokkur rýmkun verði gerð á heimild til tegundatilfærslu.

Í b-lið 3. gr. frv. er ákvæði um línuívilnun og er lagt til að hún verði tekin upp við veiðar dagróðrabáta. Línuívilnun tekur til veiða á þorski, ýsu og steinbít og takmarkast ekki við ákveðna stærð báta eða skipa en skilyrði þess að skip njóti línuívilnunar eru þessi:

1. Að línan sé beitt í landi.

2. Að róður standi ekki lengur en sólarhring.

3. Að aflanum sé landað þar sem línan er tekin um borð.

4. Að sjálfvirkt tilkynningarkerfi virki um borð í bátnum.

Línuívilnun í þorski takmarkast við 3.375 lestir sem eru 16% af áætluðum þorskafla dagróðrabáta á árinu 2002. Þessi afli skiptist á fjögur þriggja mánaða tímabil með hliðsjón af veiðum á línu á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuveiðum og gefin verður út tilkynning um að ívilnunin falli niður frá ákveðnum degi þegar séð verður að viðmiðunarafli er að nást. Ekki er gert ráð fyrir að hámark verði sett fyrir fram á ýsu og steinbít en að heimilt verði að setja þeim veiðum takmörk með sama hætti og veiðum á þorski sé talin til þess ástæða.

Gert er ráð fyrir því að þessar breytingar taki gildi 1. febrúar 2004 varðandi ýsu og steinbít en í þorski við upphaf næsta fiskveiðiárs.

Í 1. gr. frv. segir að afli og áætlaður afli vegna línu\-ívilnunar komi til frádráttar áður en leyfilegum heildarafla er skipt milli einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeildar þeirra. Jafnframt er til samræmis áréttað í þessari grein að sama gildi um svonefndan jöfnunarsjóð samkvæmt 9. gr. a eins og í raun kemur fram í þeirri grein. Samhliða því að tekin verði upp sérstök línuívilnun er lagt til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á úthlutun sérstakra potta sem úthlutað hefur verið ýmist til að styrkja ákveðin byggðarlög eða ákveðinn flokk báta:

Í fyrsta lagi verði felld niður sú 1.500 lesta takmörkun sem er á heimild ráðherra til að úthluta sérstökum byggðakvóta samkvæmt 1. mgr. 9. gr. og heimildin miðuð við þann hluta sem ekki hefur verið nýttur til að bæta skipum skerðingu í aflaheimildum.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna hefur ráðherra til ráðstöfunar 12 þús. lestir af botnfiski til að mæta fyrirsjáanlegum áföllum sem útgerðir kunna að verða fyrir vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda. Heimild þessari hefur einkum verið beitt til að bæta skipum skerðingar sem orðið hafa í skel- og rækjuveiðum og eru á þessu ári notaðar 4.300 lestir í því skyni auk þess sem heimild til úthlutunar til stuðnings byggðarlögum á allt að 1.500 lestum hefur verið nýtt á þessu og síðasta fiskveiðiári. Heimildir eru samkvæmt núgildandi ákvæði bundnar við byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.

Í frv. er sambærilegt ákvæði bundið við minni byggðarlög sem háð eru botnfiskveiðum en heimildin aftur á móti rýmkuð þannig að hún taki einnig til byggðarlaga sem verða fyrir því að aflaheimildir flytjist úr byggðarlaginu, enda hafi sá flutningur haft veruleg áhrif á atvinnuástandið í því byggðarlagi. Hafa skal samráð við Byggðastofnun um slíkar aðgerðir og er eðlilegt að líta beri til annarra aðgerða sem gripið hefur verið til til að efla byggðarlögin þegar ákvarðanir eru teknar.

Í öðru lagi er lagt til að heimildir ráðherra til úthlutunar aflaheimilda til krókaaflamarksbáta minnki um helming frá yfirstandandi fiskveiðiári til ársins 2004/2005 og loks aftur um helming frá því ári til ársins 2005/2006. Í ljósi þess að lagt er til að heimildin falli síðan niður þykir fara betur á því að ákvæðið sé gert að bráðabirgðaákvæði.

Loks er í þriðja lagi lagt til að heimild Byggðastofnunar til að úthluta árlega 1.500 lestum til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi verði minnkuð um helming frá yfirstandandi fiskveiðiári til ársins 2004/2005, aftur um helming frá því ári til ársins 2005/2006 og falli síðan niður. Þá er lagt til að þessi sérstaka heimild falli niður eftir fiskveiðiárið 2005/2006 en flytjist ekki til ráðuneytisins eins og kveðið er á um í gildandi ákvæði. Þykir það eðlilegt miðað við þá breytingu sem lagt er til að gerð verði í 2. gr. frv.

Að lokum er lagt til í 3. gr. þessa frv. að rýmka megi heimild til tegundatilfærslu þannig að hún takmarkist ekki við 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks fiskiskips eins og kveðið er á um í núgildandi ákvæði. Tilgangur með slíkri breytingu er sá að geta brugðist við því í þeim tilvikum sem einhverrar tegundar tekur að gæta í meira mæli í afla skipa en við hefði mátt búast. Má hér sem dæmi nefna að langa og keila eru í mjög mismunandi miklum mæli meðafli við línuveiðar. Með því að hækka viðmiðunarmörkin í þeim tegundum mætti mæta slíkum sveiflum.

Að lokum, herra forseti, má segja hvað varðar helstu efnisatriði frv. að sá stuðningur sem á undanförnum árum hefur verið notaður til að styðja byggðarlög sem hafa verið í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi er nú í meira mæli gerður almennur en sértækur með línuívilnuninni en jafnframt er í frv. skerpt á því á hvaða hátt hægt er að hjálpa minni byggðarlögum og byggðarlögum sem verða fyrir snöggum skerðingum á aflaheimildum eða lönduðum afla og hafa mikil áhrif á atvinnuástandið. Það er gert á markvissari hátt og ætti þar af leiðandi að ná betur þeim markmiðum sem leitast er við að ná.

Að lokinni 1. umr. legg ég til að frv. verði vísað til hv. sjútvn.