Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 13:47:27 (3020)

2003-12-10 13:47:27# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór nokkurn veginn rétt með forsögu málsins. Um þetta var fjallað í kosningabaráttunni og Sjálfstfl. hafði góð orð um að koma línuívilnun á enda var hún samþykkt á landsfundi flokksins. Frá þeim degi hafa allar mínar yfirlýsingar um línuívilnun gengið út á það að henni yrði komið á.

En þegar svona breytingar eru gerðar hljóta þær að hafa áhrif á aðrar aðgerðir sem við beitum til þess að styrkja byggðirnar. Þá hlýtur að koma til þess að þær séu skoðaðar og jafnvel breytt eins og hér er lagt til.

En það er ekki verið að minnka möguleikana til þess að styrkja byggðir með byggðakvótum í frv. Þvert á móti verða þeir möguleikar meiri en þeir voru áður og markvissari. Það er í sjálfu sér jákvætt og ætti að verða til þess að okkur takist betur að hjálpa þeim byggðum sem ég veit að hv. þm. vill reynast vel.