Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:20:36 (3031)

2003-12-10 14:20:36# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég taldi mig hafa svarað þessari einföldu spurningu. Ég hef oft farið yfir það hér í sölum Alþingis að ég er stuðningsmaður línuívilnunar ásamt öðrum slíkum reglum sem eru teknar upp til þess að þróa betri umgang við lífríkið og fiskstofnana. Þetta er ekki partur af því. Hér hafa menn ekki verið að taka á málum með þeim hætti.

Ég sagði aldrei að útfærsla Kristins H. Gunnarssonar væri miklu betri en þessi, það er bara rangt. Ég fór hins vegar yfir það að tillögur hans hefðu verið æðimikið öðruvísi heldur en það sem hér er til umræðu. Ég sagði líka að ég hefði aldrei fengið tækifæri. Ég hef svo sem ekki heldur fengið tækifæri til þess að fara yfir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni hvaða möguleikar væru til þess að breyta og hafa áhrif á þær tillögur sem liggja fyrir. Ég hef hins vegar ekki látið mér detta það í hug að ég fengi sömu tækifæri, eins og mér datt svona augnablik í hug að ég fengi, ef menn þyrftu á atbeina stjórnarandstöðunnar að halda til þess að hafa áhrif á tillögurnar eins og þær eru núna.

Ég tel því ekki líklegt --- en lengi skal manninn reyna --- og yfir það förum við í nefndinni hvaða breytingar er hægt að fá fram á þessu og hvað menn eru þá tilbúnir að gera. Ég mundi styðja línuívilnun ef hún væri hluti af því að ganga betur um lífríkið með því að þróa upp ívilnun til hinna ýmsu veiðarfæra eftir því hvernig umgangurinn um lífríkið er vegna þeirra. Ég skal alltaf standa við það.