Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:46:02 (3035)

2003-12-10 14:46:02# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:46]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að menn hafa mikið verið að rifja upp söguna er kannski skemmtilegra að hafa hana nokkuð rétta. Ég vil rifja það upp með hv. þm. að Framsfl. var með á sinni stefnuskrá fyrir síðustu kosningar bæði að auka byggðakvóta og að taka upp línuívilnun. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um það að kanna kosti þess m.a. að auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrabáta fyrir línu. Og það er það sem verið er að koma til móts við með þessu frv.

Hv. þm. talar mikið um að það sé í raun verið að leggja niður byggðakvóta og byggðaaðgerðir með þessu frv., sem er ekki rétt. Hann talar um að það sé verið að færa allt valdið til hæstv. sjútvrh., en það hefur verið ákveðið áður að sá pottur sem var hjá Byggðastofnun og hefur verið kallaður byggðastofnunarpottur fari til hæstv. sjútvrh. til úthlutunar. Hins vegar, eins og hv. þm. hefur séð, er ákvæði í frv. þess efnis að þetta skuli gert í samráði við Byggðastofnun ef um úthlutun er að ræða til byggðarlaga sem verða fyrir áföllum.

Ég vil aðeins rifja það upp að 12.000 tonnin skv. 9. gr. eru nýtt núna að hálfu, það eru því upp undir 6.000 tonn til og byggðapottarnir eru samtals 5.300 tonn. Hv. þm. vill njörva allt niður, ég hef löngu gert mér grein fyrir því, í sambandi við sjávarútvegsmál. Hann vill skipta heimildunum niður á byggðarlögin og þar skulu þau vera, hvað sem tautar og raular. Það er engin hugsun varðandi það að það skipti máli að eiga öflug fyrirtæki og öfluga einstaklinga sem hafa dug til þess að reka fyrirtækin með hagnaði. Það er eitthvað sem hv. þm. hjá Vinstri grænum þekkja ekki.