Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 14:52:13 (3038)

2003-12-10 14:52:13# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Rekstraröryggi fyrirtækjanna og atvinnuöryggi byggðanna. Þess er nú skemmst að minnast og hriktir enn í mörgum byggðarlögum vegna þess að peningamarkaðurinn, fjármálastofnanir slá eign sinni á útgerð vítt og breitt um landið þar sem arður hlutabréfanna ræður einn ferð. Það hriktir í. En það er stefna sem hæstv. viðskrh. vill standa að, tvö til þrjú, í hæsta lagi fjögur stór fyrirtæki í útgerð og fiskvinnslu sem sitja með allan kvótann. Það má vel vera að þau verði sterk. En byggðin vítt og breitt um landið sem hefur átt hlut að því að skapa þessa auðlind og á frumburðarrétt til hennar hefur ekki styrkst. Ég veit ekki, virðulegur forseti, úr hvaða glerhúsi hæstv. viðskrh. kemur ef hún fylgist ekki með hvernig byggðin hér vestur og norður um, sem hefur byggst á útgerðum sem hafa sótt fiskinn út fyrir ströndum landsins, hefur veikst á undanförnum árum vegna þeirrar stefnu sem hæstv. viðskrh. var að tala fyrir, nokkrum stórum og sterkum fyrirtækjum. Þessi stefna fer ekki saman, en gæði samfélagsins, þjóðarframleiðslan, þarf ekki að minnka þó svo að þessar byggðir haldi rétti sínum til fiskvinnslu og fiskveiða.