Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 18:16:42 (3055)

2003-12-10 18:16:42# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[18:16]

Kristinn H. Gunnarsson (frh.):

Herra forseti. Það voru fáein atriði sem ég átti eftir að koma inn á þegar ég gerði hlé á ræðu minni vegna þingflokksfunda og vil því ljúka henni núna með fáeinum orðum.

Ég hafði aðeins farið yfir þau úrræði sem menn hafa komið sér upp til þess að bregðast við aðstæðum í einstökum byggðarlögum, breytingum í atvinnumálum til hins verra vegna tilflutnings veiðiheimilda, sem mörg dæmi eru um vegna hinnar miklu samþjöppunar sem verið hefur hin síðustu ár. Það nýjasta í því er línuívilnun að hluti af rökstuðningi fyrir henni er af þessum toga. Ég vil vekja athygli á því hversu lítil áhrif línuívilnun hefur í heild sinni á sjávarútveginn. Í raun og veru hefur hún miklu minni áhrif en hin árlega ákvörðun um hámark á einstökum fiskstofnum, en þær ákvarðanir breytast frá ári til árs eins og t.d. með þorskinn og hafa miklu meiri efnahagsleg áhrif á stöðu einstakra fyrirtækja en þessi ákvörðun um línuívilnun. Í henni getur falist um 6 þús. tonna afli af ýsu, steinbít og þorski. Það er rétt liðlega 1% af aflaheimildum landsmanna og það er t.d. aðeins um 1/6 þeirra áhrifa sem urðu þegar dregið var úr þorskveiðum um 30 þús. tonn. Síðan þarf að gera samanburð á þessum áhrifum og t.d. breytingum á veiðum í ýsu um 20 þús. tonn og aukningu í þorski aftur um 30 þús. tonn. Línuívilnunin hefur því í raun og veru sáralítil áhrif á stöðu fyrirtækjanna sem eru í aflamarkskerfinu.

Varðandi byggðakvótana sem ég tel að þurfi að skoða vandlega í nefnd, umfram það sem komið hefur fram hjá mér áður um það efni, vil ég vekja athygli á því að með því að leggja til að leggja niður ákveðna byggðakvóta samkvæmt ákvæði til bráðabirgða sem Byggðastofnun hefur haft, um 1.500 tonn, var sjö ára ákvæði og svo hins vegar 2.300 tonn inni í krókaaflamarksbátunum sem er í 9. gr., verða menn að gæta þess að breytingar verði ekki með þeim hætti að það raski þeim forsendum sem þeir sem hafa notið þessara úthlutana hafa gert ráð fyrir. Ég vil t.d. geta þess að þeir sem hafa fengið kvóta úr krókaaflamarkspottinum, ýsu og steinbít, máttu vænta þess eða a.m.k. töldu sig mega vænta þess við upphaflega úthlutun, þó að hún sé frá ári til árs, að um væri að ræða fimm ára ákvörðun og nú er aðeins liðinn helmingur þess tíma.

Eins er með byggðakvótann hinn eldri, 1.500 tonn. Hann var sjö ára ákvæði til samræmis við annað ákvæði í lögunum um 3.000 tonna toll sem nú er orðinn varanlegur inni í 9. gr. og er ekki lagt til að verði lagður niður. Auðvitað hafa þeir staðir sem hafa fengið úthlutað kvóta úr þessu gert ráð fyrir því að geta notið þess í þennan tíma. Það verður að gæta þess að menn séu ekki að gera breytingar sem raska tilteknum forsendum byggðar á ákvörðunum þessara úthlutana.

Ég vil svo, herra forseti, geta þess um 9. gr. að meginákvæði hennar er að hafa 12 þús. tonn af óslægðum botnfiski í þorskígildum til að bregðast við verulegum breytingum í aflamarki einstakra tegunda. Það er meginatriðið. Nú er lagt til að auk þess geti ráðherra ákveðið að eftirstöðvum aflaheimilda, með öðrum orðum að það að setja þessa byggðakvóta þarna inn geri það að verkum að þeir verða víkjandi á eftir hinu fyrra markmiði. Þess vegna er engin vissa fyrir því hversu mikið af 12 þús. tonnunum verði ráðstafað á hverju ári til þess að mæta breytingum í aflamarki á einstökum tegundum og hversu mikið verði eftir til þess að bregðast við því sem byggðakvóta er ætlað að mæta. Þarna er því um að ræða breytingar á stöðu sem ég held að við þurfum að skoða vandlega í meðförum nefndarinnar.

Ég held að ég láti þessu lokið, herra forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði frv. og legg áherslu á að frá sjónarhóli þeirra sem mjög er umhugað um að núverandi kerfi verði fyrir sem minnstum breytingum, ætti það að vera keppikefli þeirra að stuðla að því að úrræði eins og línuívilnun og byggðakvótar verði sem árangursríkust því að það stuðlar að friði um kerfið og er þeim í hag. Þess vegna er ég mjög undrandi á þeim ályktunum sem fram koma frá helstu hagsmunaaðilum fyrir óbreyttu kerfi því að það er eins og þeir líti svo á að þetta vegi eitthvað að þeirra hagsmunum þegar það gagnstæða er í raun niðurstaðan. Ég tel að það sem mundi fyrst og fremst skapa óöryggi um framtíðina hjá þeim sem starfa í núverandi fiskveiðistjórnarkerfi ef menn hafa ekki úrræði til að bregðast við aðstæðum sem víða koma upp og skapa helst úlfúð um kerfið. Mér finnst því vera mikil skammsýni fólgin í þeirri afstöðu sem við höfum mátt hlýða á frá hagsmunasamtökum eins og LÍÚ og helstu sjómannasamtökunum. Ég verð að segja, herra forseti, að ég átta mig ekki alveg á því hvað vakir fyrir þeim, sérstaklega í ljósi þess að þessi hagsmunasamtök höfðu ekkert við málið að athuga í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Þau fjölluðu um áherslur stjórnmálaflokkanna í sjávarútvegsmálum eins og eðlilegt er, en sögðu ekki eitt orð um línuívilnun. Það var því ekki hægt að skilja þögn þeirra um það mál öðruvísi en þeir styddu það. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart hvernig hagsmunasamtök hafa brugðist við nú að afloknum kosningum.