Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 19:04:55 (3070)

2003-12-10 19:04:55# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[19:04]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að heyra skoðun hv. þm. á tegundatilfærslunni og á því að 2% væru kappnóg. Það gæti verið áhugavert fyrir einhverja af kjósendum hans í Suðurk. að heyra það.

Það hefur hins vegar legið ljóst fyrir hvað mig varðar og að ég held gervallan þingflokk Sjálfstfl. að Sjálfstfl. mundi standa að línuívilnun frá því að hún var samþykkt á landsfundi flokksins eins og nefnt hefur verið hér nokkrum sinnum í umræðunni. (Gripið fram í: Í haust.) Nei, sl. vetur í mars, hv. þm.

Hins vegar er athyglisvert að velta fyrir sér spurningum hv. þm. um hvernig eigi að ráðstafa 12 þús. tonnunum ef þessar aðstæðurnar eða hinar kæmu upp. Ég minnist þess að fyrrum leiðtogi lífs hv. þm., Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrv. formaður Alþfl., sagði a.m.k. einu sinni og sennilega hefur hann sagt það oftar, að maður eigi aldrei að svara ef-spurningum. Þessar spurningar eru ef-spurningar og eru það flóknar að það er engin leið að svara þeim hér og því hvernig þetta verður gert. Þó er hægt að segja að það verður reynt að fara með þessar heimildir af ábyrgð þannig að þær nýtist þeim sem þær eiga að nýtast og jafnframt samfélaginu öllu. Það á ekki að mismuna, eins og gefið hefur verið í skyn að gert hafi verið. Tilgangur þessa frv. er að gera ráðstöfun þessara aflaheimilda markvissari til að þær nái betur þeim tilgangi sem þeim er ætlað að ná.