Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 20:44:49 (3086)

2003-12-10 20:44:49# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[20:44]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. færði okkur fréttir. Það er búið að semja um málið. Málinu verður væntanlega vísað til hv. sjútvn. sem hefst handa við það í fyrramálið á fundi að velta því fyrir sér, en til hvers? Það er búið að semja um málið. Spurning sem vert væri að spyrja hv. þm. að er: Kemur frv. til með að enda eins og það er núna eða er búið að semja um einhverjar brtt. sem væntanlega eru frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og boðaðar hafa verið í umræðum?

Annað sem vert er að spyrja um er: Telur hv. þm. miðað við þá þingreynslu sem hann hefur og stærð þessa máls að eðlilegt sé að keyra það í gegn tveimur dögum fyrir jól? Að málið sé ekki stærra en svo að hægt sé að klára það á tveimur dögum án þess að leita eftir umsögn hagsmunaaðila eða fara yfir málið eins og það liggur?

Varðandi tegundatilfærsluna lýsti ég því í ræðu að ég væri ekki sammála því að auka hana og þingmaðurinn sagði að hann vildi að hún væri aukin. Ég held að það sé full ástæða til þess að við sjáum keilu, löngu og skötusel tekin út úr kvóta núna miðað við fiskirí.