Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 21:54:22 (3110)

2003-12-10 21:54:22# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, BJJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[21:54]

Birkir J. Jónsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er athyglisvert að hlusta á samfylkingarmenn ræða um kvótakerfið og fiskveiðistjórnarkerfið. Ég vil rifja það upp fyrir hv. þingmönnum að það var Samf. sem reið um héruð í aðdraganda síðustu kosninga og ræddi um að hún vildi fyrna veiðiheimildirnar á fimm til tíu árum. Hún vildi fyrna veiðiheimildir Samherja, ÚA, Tanga á Vopnafirði, sem hv. þm. varð tíðrætt um hér áðan, Eskju, Síldarvinnslunnar, Þormóðs ramma og fleiri fyrirtækja. Þá var í tísku að nota orðið sægreifar og mála dálítið dökka mynd af forsvarsmönnum þessara fyrirtækja og átti að sigla á þau mið að fella ríkisstjórnina á þessu máli.

Ég vil spyrja hv. þm. um stefnu Samf. í sjávarútvegsmálum. Er það ekki rétt að stefna Samf. er enn sú að fyrna veiðiheimildir þessara fyrirtækja á fimm til tíu árum? (Gripið fram í: Nei, tíu.)

Þá vil ég spyrja hv. þm.: Hvað verður um atvinnuöryggi þeirra einstaklinga sem vinna við þessi fyrirtæki? Heldur hv. þm. að þetta mundi ekki hafa í för með sér neina byggðaröskun, að fyrna kvóta af þessum öflugu fyrirtækjum? Ég fullyrði að ef við ætluðum að fyrna kvóta af þessum fyrirtækjum sem mörg hver eru í kjördæmi hv. þm. þá yrði ekkert til sem héti stöðugleiki og efnahagslífið mundi taka mikla dýfu. Það fullyrði ég. Ég vona svo sannarlega að Samf. sé búin að skipta um skoðun í kvótamálinu.