Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 22:38:55 (3129)

2003-12-10 22:38:55# 130. lþ. 47.1 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 130. lþ.

[22:38]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Hv. þm. vill að ég tali skýrt. Ég hef talað skýrt. Hann þarf ekki að óska eftir því frekar. Hann þarf hins vegar sjálfur að tala skýrt.

Miðað við núverandi kerfi gæti hið góða fyrirtæki hér í Reykjavík, Grandi hf., keypt upp aflaheimildir Samherja og farið með þær suður. Hvað ætlar hv. þm. þá að gera? Ætlar hann þá í línuívilnun? Ætlar hann í tegundatilfærslu? Eða ætlar hann í byggðakvóta fyrir Akureyringa? Hann verður að svara þessu.

Það er sérkennilegt og eiginlega ömurlegt að heyra ungan þingmann tala með þeim gífuryrðum sem hann hefur gert um fyrningarleiðina og stefnu Samf., sérstaklega vegna þess að það hefur hann eftir ágætum manni úr kjördæmi sínu, framkvæmdastjóra Samherja, sem svona talaði fyrir kosningar og varð sér þá til skammar en seinna að athlægi þegar hann sjálfur hafði meira og minna lagt niður fiskvinnslu og útgerð á ýmsum stöðum sem hér voru taldir upp. Hv. þm. sem þó er úr sama kjördæmi hefur hvorki svarað Kristjáni L. Möller né öðrum mönnum varðandi þau mál.