Almannatryggingar

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 10:43:26 (3150)

2003-12-11 10:43:26# 130. lþ. 48.2 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, Frsm. meiri hluta JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[10:43]

Frsm. meiri hluta heilbr.- og trn. (Jónína Bjartmarz) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að draga þessa umræðu á langinn en vegna orða hv. þingmanns áðan þar sem hann lagði í ræðu sinni áherslu á að þeir sem verst stæðu og byggju við bágust kjörin nytu sem mest þeirra úrræða sem verið væri að grípa til og þeirra auknu fjárframlaga leikur mér forvitni á að vita hver afstaða hv. þingmanns er til þess að þeir sem ekki eiga framreiknaðan eða neinn rétt úr lífeyrissjóði njóti betur en aðrir og meira af þessum háu fjárframlögum sem verið er að leggja inn til Tryggingastofnunar vegna þessa frv. Í upplýsingum sem við erum nýbúin að fá kemur fram að það eru 5.513 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar sem eru ekki með nokkurn rétt í lífeyrissjóði. Þetta er einmitt það sem meiri hluti nefndarinnar bendir á í nál. sínu, að þetta eru þeir sem við þurfum sérstaklega að gefa gaum við endurskoðunina sem segir í greinargerðinni að eigi að fara fram næsta vor.

Fram kemur að af þessum 5.513 eru 1.647 20 ára og yngri þegar þeir voru fyrst metnir til örorku eða uppfylltu skilyrði endurhæfingarlífeyris.