Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 15:59:41 (3195)

2003-12-11 15:59:41# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. meiri hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér leiðist í rökræðum þar sem menn tala um að einhver misskilji, rugli saman o.s.frv. Svoleiðis orðalag finnst mér ekki vera málefnalegt. (Gripið fram í.)

En svo segir hv. þm. að við séum að ganga á ystu nöf og að við vonumst til, eða ég vonist til þess, að þetta standist stjórnarskrána. Það er ekki rétt. Mín sannfæring er sú að þetta standist stjórnarskrána. Ef þetta stenst ekki stjórnarskrána þá er ýmislegt annað sem stenst ekki stjórnarskrána sem ég er að samþykkja, t.d. hækkun á hátekjuskatti sem hv. þm. samþykkir væntanlega líka.

Mín sannfæring er sú --- hv. þm. getur ekki gert mér upp sannfæringu --- að þetta standist stjórnarskrána og ef það geri það ekki þurfum við að endurskoða mjög margt í skattlagningu, herra forseti. Þetta er því ekki spurning um að ég vonist til eins eða neins. Þetta er heldur ekki spurning um að ég telji mig á ystu nöf, engan veginn.

Ég leyfi mér að lesa upp, herra forseti, niðurlagið í áliti Eiríks Tómassonar, sem segir svo:

,,Þrátt fyrir þetta er það álit mitt að líkur séu á því að íslenskir dómstólar muni komast að þeirri niðurstöðu að ráðgerð skerðing vaxtabóta á árinu 2004 með því að skerða vaxtabætur afturvirkt um 10% hjá öllum þeim, sem rétt eiga á bótunum samkvæmt núgildandi lögum, sé stjórnskipulega gild.``

Þetta segir prófessorinn í áliti sínu. (LB: Að líkur séu á því.) Já, ég er búinn að svara því. Þar er hann að tryggja sig fyrir því að Hæstiréttur breyti enn einu sinni túlkun sinni á stjórnarskránni.