Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 16:55:03 (3198)

2003-12-11 16:55:03# 130. lþ. 48.8 fundur 88. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (sérstakur tekjuskattur, viðmiðunarfjárhæðir o.fl.) frv. 143/2003, Frsm. 1. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki þennan málflutning. Ég óskaði eftir því að þetta frv. yrði sent til fjölskylduráðs. Ég var að lesa upp úr umsögninni sem við fengum frá fjölskylduráði. Ég legg það ávallt til ef um er að ræða eitthvað sem snertir heimilin í landinu að fjölskylduráð fái eitthvað um það að segja. Ég hygg að ég sé ein af fáum þingmönnum sem það gera.

Ég var að gagnrýna að ríkisstjórnin sendi ekki málið til umsagnar til fjölskylduráðs eins og hún á að gera samkvæmt lögum. Við skulum muna það í sameiningu hér eftir, ég og hv. þm., að í hvert einasta skipti sem við fáum mál sem snertir fjölskylduna þá fái fjölskylduráð viðkomandi frv.

Ég minni hv. þm. á, af því að hann hefur tækifæri til þess, þ.e. hann fær frumvörp til skoðunar í þingflokki sínum áður en þau eru lögð fyrir þingið, að spyrjast fyrir um það í þingflokki sínum hvort frumvörp, sem lúta að skerðingum á kjörum heimilanna eða einstaklinganna, hafi farið til fjölskylduráðs. Þetta var skrýtin ábending hjá hv. þm.

Varðandi hátekjuskattinn þá átti hann að falla niður um næstkomandi áramót. (Gripið fram í.) Ekki er við okkur í stjórnarandstöðunni að sakast að svo verður ekki. Þar er við hans eigin ráðherra og hans eigin þingflokk að sakast. Þeir stóðu ekki við það sem þeir sögðu í kosningabaráttunni, að það ætti að leggja niður hátekjuskattinn. Maðurinn sem hv. þm. var að vísa til og nefna dæmi um á ekkert sökótt við okkur í stjórnarandstöðunni. Hann á fyrst og fremst eitthvað sökótt við Sjálfstfl. sem sveik loforð um að afnema hátekjuskattinn eins og hann sveik önnur loforð. Hann lofaði að tímasetja í upphafi þessa þings í haust skattalækkanir en hann hefur ekki gert það, a.m.k. ekki enn þá. Hann talaði ekki um að hans fyrsta verk yrði að skerða vaxtabætur.

Allt það sem hv. þm. nefndi ætti hann fyrst og fremst að ræða á þingflokksfundi hjá sjálfstæðismönnum en ekki í þingsalnum.