Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 11. desember 2003, kl. 17:51:19 (3211)

2003-12-11 17:51:19# 130. lþ. 48.12 fundur 11. mál: #A virðisaukaskattur# (hljóðbækur) frv. 145/2003, Frsm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 130. lþ.

[17:51]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá efh.- og viðskn. um frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneytinu og Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra.

Þá bárust nefndinni umsagnir frá Ríkisútvarpinu, Alþýðusambandi Íslands, Kennarasambandi Íslands, ríkisskattstjóra, Neytendasamtökunum og Öryrkjabandalagi Íslands.

Með frumvarpinu er lagt til að virðisaukaskattur af hljóðbókum verði lækkaður úr 24,5% í 14% sem er sama skatthlutfall og leggst á bækur almennt. Sanngirnisrök styðja þessa breytingu.

Nefndin leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Önnur miðar að því að skýra nánar hvað átt sé við með hljóðbók þannig að það valdi ekki vafa í framkvæmd. Lagt er til að ákvæðið verði takmarkað við hljóðupptökur af lestri bóka sem í ákvæðinu greinir. Jafnframt þykir rétt að gildistaka frumvarpsins falli saman við uppgjörstímabil virðisaukaskattsins og er því lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar næstkomandi.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldum breytingum:

1. Efnisliður 1. gr. orðist svo: Sala bóka, jafnt frumsaminna sem þýddra, sem og hljóðupptökur af lestri slíkra bóka.

2. 2. gr. orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Frú forseti. Ég vil benda á að um er að ræða frv. sem flutt er af stjórnarandstöðunni en meiri hluti efh.- og viðskn. taldi málið vera heillaspor. Hér er um að ræða að sá hluti þjóðarinnar sem ekki getur notið bóka sem bera lægri virðisaukaskatt, þ.e. blindir og aldraðir, fái að njóta lægri virðisaukaskatts af hljóðsnældum og diskum þar sem bækur eru lesnar. Fram kom hjá fjármálaráðuneytinu að nokkur vandi væri að aðgreina slíka diska frá öðrum. En það er eins og víðar, að það er erfitt um vik.

Rökstuðningurinn fyrir breytingunni er sá að hljóðbækur séu félagslegt atriði fyrir þá sem ekki hafa fulla sjón. Þar af leiðandi ættu menn að hafa það í huga, þeir aðilar sem vilja víkka skattinn út á geisladiska almennt, en það stendur ekki til.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nál. rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Kristinn H. Gunnarsson, Gunnar Birgisson, Birgir Ármannsson, Páll Magnússon, Lúðvík Bergvinsson og Ögmundur Jónasson.