Tollalög

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 11:20:58 (3258)

2003-12-12 11:20:58# 130. lþ. 49.22 fundur 460. mál: #A tollalög# (landbúnaðarhráefni) frv. 134/2003, Frsm. DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að málið varðar mjög tæknileg atriði sem er útfærsla á þeim heimildum sem landbrh. voru fengnar sl. vor með breytingum á tollalögum og hvernig á að útfæra heimildina til vinnslu hér og skylduna til að flytja hráefnið út. Meginmarkmið með þessu frv. er að tryggja, undir reglugerðarákvæði, að hægt sé bæði að veita leyfið og fylgjast vel með þessu. En það er alveg ljóst að ef varan verður ekki flutt úr landi innan þess tímafrests sem gefinn er, sem er sex mánuðir, þarf innflytjandi að greiða tolla samkvæmt tollskrá. Þannig er það ef um hreindýrakjötið er að ræða, sem við erum að ræða hér þó það sé ekki nefnt í frv., sem er flutt inn til vinnslu og út aftur. En ef það verður ekki gert þarf innflytjandinn að greiða 30% verðtoll og 1.014 kr. á hvert kíló. En almenna reglan er sú að það er öllum heimilt að flytja inn kjöt og aðrar landbúnaðarvörur ef uppruni og heilbrigðisvottorð er fullnægjandi með fullum aðflutningsgjöldum samkvæmt tollskrá.

Aðalatriði þessa máls er að þarna er verið að veita heimild til þess að vinna úr hreindýrakjötinu til fullvinnslu og það á að flytja það kjöt út aftur, það á ekki að koma á innanlandsmarkað.