Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 12:51:35 (3286)

2003-12-12 12:51:35# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, GMJ
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[12:51]

Grétar Mar Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. ásamt hv. þm. Jóni Bjarnasyni við frv. til laga um breytingar á lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Við bætist ný grein er verði 1. gr., svohljóðandi:

2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo: Leyfilegir sóknardagar hvers fiskveiðiárs verði aldrei færri en 23, og skal þeim fjölgað um einn fyrir hver 20 þúsund tonn leyfðs heildarþorskafla á fiskveiðiárinu umfram 230 þúsund tonn.``

Hæstv. forseti. Ég stend að minnihlutaáliti sem komið hefur fram um þetta frv. en ég neita því ekki að það kemur manni spánskt fyrir sjónir, svona nýgræðingi sem kemur hér og er búinn að vera bara í nokkra daga við störf á þinginu, að frv. um línuívilnun, um byggðakvóta, um tegundatilfærslu, ég hefði haldið að þetta ætti að vera í þremur frv. en ekki einu. Það er dálítið ruglingslegt fyrir okkur sem erum blautir á bak við eyrun í þessum störfum hér að fást við þetta. En þetta frv. er raunverulega um þrjú óskyld mál, þó svo auðvitað megi alltaf tengja þetta saman og ég er kannski að bæta við því fjórða með breytingartillögunni.

En, herra forseti, á fund sjútvn. komu fulltrúar allra hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og hafa komið á fundi nefndarinnar út af þessu, ekki bara í gær, en þeir voru allir óánægðir og allir höfnuðu frv. eins og það lítur út nú, hvort sem það voru dagabátakarlar, Landssamband smábátaeigenda, útvegsmenn, sjómannasamtökin, Sjómannasambandið, Farmanna- og fiskimannasambandið, Vélstjórafélagið og þess vegna finnst manni dálítið sérkennilegt að menn skuli vera að keyra málið í gegnum þingið núna svona illa úr garði gjört.

Í mínum huga er þetta ekkert stórmál. Þarna er ekki um mikinn afla að ræða. Þetta er ekki það að hægt sé raunverulega að setja allan sjávarútveg í stríð út af þessu. En það er kannski verið að reyna að leiða athyglina frá öllum öðrum málum í sjávarútvegi eins og sjálfu fiskveiðistjórnarkerfinu, sem er auðvitað það sem við þurfum að hafa verulegar áhyggjur af, að afhenda fáum útvöldum auðlindina gefins, að afhenda 500 milljarða til handa fáum og skilja byggðirnar hringinn í kringum landið án veiðiheimilda, án atvinnu, í verðlausum húsum og í hálfgerðum átthagafjötrum. Fólkið kemst jafnvel ekki burtu þó að það vilji fara, færa sig á mölina, færa sig á höfuðborgarsvæðið. Þetta er auðvitað miklu meira mál og verra og það er það sem við þurfum að beita okkur fyrir í framtíðinni og breyta sem fyrst.