Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. desember 2003, kl. 17:29:07 (3312)

2003-12-12 17:29:07# 130. lþ. 49.20 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 130. lþ.

[17:29]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ákvæði núgildandi laga um hvenær grípa skuli til úthlutunar sérstakra veiðiheimilda eru afar fátækleg. Þar segir bara almennum orðum við þær aðstæður þegar byggðarlög hafa orðið fyrir samdrætti í sjávarútvegi og það hefur skapað vanda. Í frv. og tillögu meiri hlutans er að finna miklu nákvæmari skilgreiningar á því hvenær grípa eigi til þessara aðgerða og við hvaða atriði eigi þá að styðjast við það mat. Ég tel að þessar breytingar séu mjög til bóta, skýri málið, þannig að menn viti miklu frekar að hverju þeir ganga. Ég er því ekki sammála þingmanninum í því að við séum að stíga eitthvert skref aftur á bak, þvert á móti erum við að styrkja þetta. Við erum að styrkja það að menn geti vænst þess að fá veiðiheimildir við þær aðstæður sem skilgreiningin nær til.

Ég vil svo aðeins segja vegna þess sem fram kom í máli hv. þm. varðandi heimsókn fjögurra hagsmunasamtaka sem kusu að flytja mál sitt í mjög stuttu máli. Það er ekki í sjálfu sér, eins og þingmaðurinn orðaði það, að vinna sér í haginn að hafa marga umsagnaraðila samtímis inni. Það er gert til þess að þeir geti hlýtt hver á annars mál og brugðist við því og komið á framfæri athugasemdum sínum og leiðrétt málflutning annars aðila ef þeir telja að þess þurfi við. Þetta er nauðsynlegt að gera í málum sem eru mjög umdeild, sem þetta mál er, meðal hagsmunaaðila. Ég taldi því algjörlega nauðsynlegt að þessir útvegsmannahagsmunahópar væru samtímis inni þannig að hver gæti talað að hinum áheyrandi.