Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:09:42 (3320)

2003-12-13 10:09:42# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), GÖg
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:09]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég hef verið heima vegna veikinda þannig að ég hef verið að hlusta á fjölmiðla í þessu máli varðandi Ríkisspítalana. Það sem mér finnst eiginlega standa upp úr umræðunni er að greinilega eru stjórnarnefnd og læknar Ríkisspítala farnir að sjá um alla stefnumótunarvinnu fyrir ríkisstjórnina.

Auðvitað eiga slíkar tillögur að koma héðan úr þinginu og auðvitað á stefnumótunin að gerast hér. Hún á að gerast í ráðuneytinu og það þarf þá að fara yfir hvar þessi aukning hefur verið svona mikil á sl. árum. Við erum enn samt sem áður bara að tala um viðbætur samkvæmt því sem hér hefur verið sagt.

Það gengur ekki að vera með einhverjar handahófskenndar ákvarðanir. Það gengur heldur ekki að við tökum alla stoðþjónustu á spítölum úr sambandi. Stoðþjónustan hefur gert það að verkum að hægt er að fækka legudögunum. Er það það sem við viljum sjá? Aldeilis ekki, tel ég, þannig að mér finnst að við verðum aðeins að fara að hugsa um það sem er að gerast hér. Mér finnst það alvarlegt mál ef stefnumótunin er ekki hjá hinu pólitíska valdi, heldur hjá stjórnarnefndinni. Það er mjög alvarlegt mál ef loka á Arnarholti, endurhæfingardeild krabbameinssjúklinga og ef loka á fyrir alla glasafrjóvgun. Ef umræðan hefði verið á þessu plani í fjárlagaumræðunni er ég ansi hrædd um að það hefði verið eitthvað annað upp á teningnum.

Herra forseti. Við verðum að gera svo vel að skoða þessi mál.