Málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 10:15:39 (3323)

2003-12-13 10:15:39# 130. lþ. 50.92 fundur 243#B málefni Landspítala -- háskólasjúkrahúss# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[10:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra segir að spítalinn verði að laga sig að þeim fjárveitingum sem hann fékk á fjárlögum. Hann er að vísa pólitískri stefnumótun á starfsmenn spítalans. Það var auðvitað alveg ljóst að þegar 1,5 milljarði var ekki úthlutað til spítalans við fjárlagaafgreiðsluna yrði að skera niður þjónustu. Voru menn ekki búnir að gera það upp við sig í stjórnarliðinu þegar þeir ákváðu að það ætti að skera niður þjónustu á spítalanum hvað ætti að skera niður? Það er pólitísk ákvörðun að hætta að veita þjónustu og veita minna fé til spítalans.

Það er svo sannarlega enginn sparnaður að þeim niðurskurði sem spítalinn stendur frammi fyrir. Hvaða afleiðingar hefur þetta fyrir aðra þætti í rekstri ríkisins? Uppsagnir 200 manns þýða auðvitað útgjöld fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Lengri biðlistar kalla á aukin útgjöld fyrir Tryggingastofnun ríkisins, fyrir sjúklingana sjálfa, fyrir félagslega kerfið og heilsugæsluna. Það verða útgjöld hjá sérfræðilæknisþjónustunni o.s.frv. Hvað hafa menn verið að hugsa?

Það þarf að koma fram í umræðunni hvað menn ætluðu að skera niður. Hvað ætlaði ríkisstjórnin að gera í þessum málum? Ég vísa á ummæli formanns Læknafélagsins. Hann segir að þetta muni valda stórfelldum skaða í starfi spítalans. Óbætanlegum skaða. Þetta er háskólasjúkrahúsið okkar. Það mun skaða stórfelldlega heilbrigðismenntun í landinu að skera niður þjónustuna. Og ég segi: Hversu lengi á þetta að ganga svona með Landspítala -- háskólasjúkrahús? Þetta er að verða sagan endalausa með þennan spítala, það á sífellt að skera niður þjónustu til þess að reka spítalann með óbreytta fjárveitingu og menn eru ekki tilbúnir að segja hvað hægt er að skera niður.