Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 11:06:00 (3342)

2003-12-13 11:06:00# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[11:06]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef talað um það hvernig vinnubrögð eigi að vera ef menn ætla að reyna að ná sátt og ná niðurstöðu um jafnviðkvæm mál og hér voru dregin upp á borð. Ég geri mér grein fyrir því og gerði mér grein fyrir því þegar við vorum í nefndinni að að sjálfsögðu hefðum við ekki átt að taka þátt í þessari vinnu. Það er grundvallarmunur á því að koma inn með frv. þar sem var einn frá hverjum flokki sem féllst á að flytja það á grundvelli þess að þetta ætti að vera samvinnumál eða, eins og ég hef greint frá, þegar menn byrja saman, einn frá hverjum flokki, að skoða mál. Ég hélt að við værum að fara saman í þannig vinnu og þess vegna kom ég inn á fund og sagði: Málinu er lokið. Það næst ekki niðurstaða í því. Málinu er lokið. Og ég var þvílíkt barn eftir öll þess ár á þingi og eftir að hafa kynnst svona vel þessum meiri hluta að ég hélt að málinu væri lokið.

Nei, því var ekki lokið. Þá ætlum við áfram með það af því að við erum meiri hlutinn. Þetta er það sem ég er að draga fram. Þetta er aðalatriðið.