Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:02:47 (3409)

2003-12-13 14:02:47# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, Frsm. meiri hluta BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég hef í umræðum um þetta mál fyrr í dag greint frá því að ég hafi sem formaður allshn. óskað eftir því að reiknað yrði út af sérfræðingum hvaða áhrif frv., eins og það liggur fyrir þinginu með brtt. allshn., hefði á eftirlaunaskuldbindingar ríkisins.

Mér hefur nú borist svarið og því er verið að dreifa til þingmanna. Ég ætla að lesa það upp, með leyfi forseta:

,,Talnakönnun hf. hefur að beiðni yðar metið hvaða áhrif frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara hafi á lífeyrisréttindi þessara hópa. Miðað er við frumvarpið með breytingartillögum allsherjarnefndar.

Tími til útreikninga var afar skammur og ekki gafst færi á að fara yfir útreikninga með sama hætti og gert er til dæmis við úttekt á eftirlaunasjóðum. Tryggingafræðilegar forsendur eru þær sömu og gert er við úttekt á lífeyrisskuldbindingum vegna alþingismanna, ráðherra og annarra þeirra sem frumvarpið tekur til. Núvirt er miðað við 2% ávöxtun, en það er í samræmi við reglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um núvirðingu þegar réttindin miðast við laun eftirmanna. Miðað er við dánarlíkur áranna 1996--2000 og danskar örorkulíkur.

Til grundvallar matinu er miðað við alla þá sem áttu réttindi til lífeyris um síðustu áramót. Annars vegar lá fyrir úttekt frá vorinu 2003 um réttindin eins og þau voru þá og hins vegar var metið í samræmi við réttindin eins og þau koma fram í frumvarpinu.

Meginatriði við útreikninginn er forsendan um það hvenær menn muni fara á lífeyri. Við úttektina síðastliðið vor er reiknað með því að allir þeir sem ekki eru þegar farnir á lífeyri muni hefja töku lífeyris 65 ára. Við mat á frumvarpinu eru tekin tvö tilvik:

a. Kannað er hvaða áhrif það hefur ef allir hætta við fyrsta tækifæri sem þeir geta, og þá miðað við að þeir muni á þeim aldri hafa uppfyllt skilyrði laganna til þess að hætta, jafnvel þó að þeir hafi ekki uppfyllt þau nú þegar.

b. Í hinu tilvikinu er reiknað með því að menn hætti almennt 60 ára gamlir, ef þeir uppfylla skilyrði til þess um síðustu áramót, en þeir sem ekki hafa þegar unnið sér inn réttindi til þess að hætta fyrir 65 ára aldur hætti 65 ára. Þessi tilvik ættu að gefa hugmynd um efri og neðri mörk á breytingu á eftirlaunaskuldbindingunni. Vegna þess að menn hafa rétt á að velja þann rétt sem hagstæðastur er, nýr eða gamall, er í þessum útreikningi gert ráð fyrir því að allir velji sinn besta rétt.

Niðurstöður eru sem hér segir:

Hjá alþingismönnum og ráðherrum hækkar ellilífeyrisréttur almennt en í flestum tilvikum minnkar réttur til makalífeyris. Gert var ráð fyrir því að þegar rétthafar hafi valið rétt eftir nýjum eða eldri lögum að bæði elli- og makalífeyrisréttur sé eftir sömu reglum. Hjá hæstaréttardómurum er hækkunin vegna rýmri réttinda maka til lífeyris.

Áfallin eftirlaunaskuldbinding vegna alþingismanna hækkar um 4,1% miðað við að þeir hætti við fyrsta tækifæri, en ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru þegar komnir á eftirlaun hækkar hún um 8,5%.

Ef miðað er við að alþingismenn hætti almennt 65 ára lækkar skuldbinding vegna þeirra um 3,1%, en ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru þegar komnir á eftirlaun lækkar hún um 7,0%.

Áfallin eftirlaunaskuldbinding vegna ráðherra hækkar um 23,9% miðað við að þeir hætti við fyrsta tækifæri, en ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru þegar komnir á eftirlaun hækkar hún um 38,8%.

Ef miðað er við að ráðherrar hætti almennt 65 ára (nema þeir sem þegar hafa unnið sér rétt til þess að hætta fyrr) hækkar skuldbinding vegna þeirra um 7,5%, en ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru þegar komnir á eftirlaun hækkar hún um 11,9%.

Áfallin eftirlaunaskuldbinding vegna hæstaréttardómara hækkar um 5,0%, en ef aðeins er miðað við þá sem ekki eru þegar komnir á eftirlaun hækkar hún um 8,5%.

Ekki er reiknað með að þessi breyting hafi áhrif á eftirlaun forseta Íslands.

Í árslok 2002 voru áfallnar eftirlaunaskuldbindingar í heild vegna þessara hópa sem hér segir í millj. kr.

Alþingismenn alls 4.185 milljónir, breyting verst 172 milljónir, breyting best mínus 130 milljónir.

Ráðherrar 883 milljónir alls, breyting verst 211 milljónir, breyting best 66 milljónir.

Hæstaréttardómarar alls 1.135 milljónir, breyting verst 57 milljónir, breyting best 57 milljónir.

Embætti forseta Íslands alls 398 milljónir, breyting verst 0, breyting best 0.

Alls 6.601 milljón, breyting verst alls 439 milljónir, breyting best alls mínus 7 milljónir.

Breyting í versta tilviki 6,7% til hækkunar, í besta tilfellinu mínus 0,1%.

Alls eru því hækkanir vegna þessa frumvarps á áfallinni lífeyrisskuldbindingu ríkisins á bilinu 0 til tæplega 7%.

Ítrekaðir eru fyrirvarar vegna þessara útreikninga.``

Nú liggur fyrir mat sérfróðra aðila á áhrifum frv. eins og það liggur fyrir þinginu með brtt. frá allshn. Niðurstöðurnar eru, eins og ég var að fara yfir, að áfallin eftirlaunaskuldbinding er frá því að vera mínus 0,1% við bestu aðstæður --- þegar talað er um bestu aðstæður er verið að horfa frá sjónarmiðum ríkissjóðs. Í versta falli --- þá er verið að taka versta mögulega tilvik, og ég ítreka það sem kemur fram í bréfinu að í því tilviki er gert ráð fyrir því að allir hætti við fyrsta tækifæri sem þeir geta og miðað við að þeir muni á þeim aldri hafa uppfyllt skilyrði laganna til þess að hætta, jafnvel þó að þeir hafi ekki uppfyllt þau nú þegar --- eykst skuldbindingin um tæp 7%.

Umræðan um áhrif laganna í fjárhagslegu tilliti, eins og menn hafa tekið hana hingað til, hefði kannski fyrst og fremst átt að snúast um þetta. Ég verð að segja að miðað við sleggjudómana sem hafa fallið í fjölmiðlum og hafa að hluta til borist inn á þingið eru áhrifin að mínu mati mjög hófleg.

Hins vegar hlýtur maður að gera kröfu til þeirra sem ekki hafa getað tekið afstöðu til frv. á þeirri forsendu að ekki hafi legið fyrir hver áhrifin yrðu fyrir ríkissjóð að þeir taki nú skýrari afstöðu, og maður hlýtur að gera ráð fyrir því, hafi þeir haft þann fyrirvara að þetta lægi ekki fyrir, að þeir styðji frv.