Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 14:54:55 (3429)

2003-12-13 14:54:55# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða tilgang það hefur að bregðast við þeim ræðum sem stjórnarliðarnir flytja í dag. Ég reyndi að fara í gegnum þessi mál í framsögu minni í morgun. Meginatriði þessa máls er að við höfum verið ákveðin í því, alltaf þegar upp hefur komið umræða um að taka á þessum málum, að gera eins og hingað til, að vera samferða í því hvað við tækjum upp, hverju við breyttum og hvað við kæmumst að niðurstöðu um. Það er meginmálið. Hér hafa menn bent á að Samf. hafi kom með mjög margar fyrirspurnir til fulltrúa lífeyrissjóðsins og fulltrúa fjmrn. sem komu á fund nefndarinnar.

Samf. kom með spurningar sem leiddu í ljós það sem enginn hafði vitað áður, að það er greitt tvisvar sinnum 15% álag hjá þingmönnum, sem hafði verið grundvallaratriði þegar það mál var sett á. Þótt upp kæmi ósætti þegar þetta mál kom inn í þingflokkinn um hvernig það bæri að, tilbúið frv. sem við ættum að taka afstöðu til í stað þess að fara saman í vinnu við svona þingmál, talaði ég fyrir því, sem ég hefði eflaust ekki átt að gera, að við skoðuðum hvað væri í þessu frv. og hverju við gætum fengið breytt. Af því að hér hefur aftur og aftur verið talað um hlutföllin, þá fórum við aldrei neitt í 6. gr. Samstaðan og samfylgdin í þessu máli var ekki meiri en svo að það kom fram að ekki mátti hreyfa við 6. gr. sem laut að forsrh. Hér er málið þannig að þingmenn fá 70% og gerð tillaga um að forsrh. fái 80% og hæstaréttardómarar, sem eru stutt í starfi, fái 80%, að ráðherrar fái miklu hærra hlutfall, 70% í stað 50% áður á ráðherrahliðinni. Þetta fórum við aldrei í og reyndi ekki á það.