Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:21:44 (3439)

2003-12-13 15:21:44# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. formanns allshn., Bjarna Benediktssonar, um að til greina komi að vísa lífeyrisþætti í kjörum alþingismanna til Kjaradóms eins og öðrum þáttum í kjörum þeirra með nýjum lögum um Kjaradóm. Ég tel að það færi einfaldlega betur á því og ég tel að það færi betur á því að menn féllu frá því að keyra í gegn það frv. sem hér liggur fyrir og færu einfaldlega þá leiðina.

En um það að ekki liggi fyrir útreikningur á lífeyrisskuldbindingum vegna embættis forsrh. þá er það einfaldlega ekki rétt vegna þess að það stendur í forsendunum sem hv. þm. las að reiknað hafi verið út fyrir hvern og einn hver kostnaðurinn yrði og það hefur þá verið gert sérstaklega fyrir forsrh. og embætti forsrh. er þá hluti af samtölunni og það hlýtur bara að vera hægt að kalla eftir henni, en verði það ekki gert hljótum við að líta svo á að innan við helmingur þýði að kostnaðar vegna embættis forsrh. sé 110 millj. kr. og sú tala stendur þangað til leiðrétting hefur borist frá formanni allshn.