Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:35:47 (3451)

2003-12-13 15:35:47# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, PHB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:35]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Í tvígang hef ég flutt frv. á Alþingi sem miða að því að þingmenn hafi sömu lífeyrisréttindi og meginhluti annarra landsmanna og er það í samræmi við það sjónarmið að þingmenn hafi sömu lífeyrisréttindi og sömu réttindi og það fólk sem kýs þá til þings. Þetta hef ég talið mjög mikilvægt og tek þar undir sjónarmið hv. þm. Ögmundar Jónassonar.

Þessi frv. gengu út á það að metin yrðu til fjár þau lífeyrisréttindi og önnur réttindi sem þingmenn hafa og að launin hækkuðu sem því nemur, sem kemur náttúrlega út á eitt fyrir ríkissjóð. Þá kæmi líka í ljós hver launin eru raunverulega.

Ef við horfum yfir landslag handhafa ríkisvaldsins er það mjög margbreytilegt. Í fyrsta lagi erum við með hæstaréttardómara sem hafa mjög góð lífeyrisréttindi, 80%, jafnvel 100% ef þeim er sagt upp eða hætta með öðrum hætti. Þá erum við með forseta lýðveldisins sem er með 80% eftir að hann hefur þriðja kjörtímabilið. Laun hans voru lengi vel skattfrjáls, frú forseti. Það er mjög athyglisvert því að hann var ekki bara skattfrjáls af tekjum sínum heldur líka neyslu og maki hans var sömuleiðis skattfrjáls um allan heim, einnig af tekjum og neyslu. Hann borgaði ekki virðisaukaskatt, olíugjald eða neitt annað sem borgarar þessa lands þurfa að borga. Þá höfum við haft forsrh. sem var sem þingmaður með hámark 70% á lífeyrisgreiðslur en sem ráðherra var hann með hámark 50%, frú forseti. Það þarf því ekki að liggja lengi yfir þessum lífeyrisréttindum til að sjá að af þessum þremur handhöfum ríkisvaldsins er forsrh. langverst settur.

Varðandi frv. sem við erum að ræða er ýmislegt í því til bóta að mínu mati. Lífeyrisrétturinn er gerður gegnsærri, menn taka mið af því sem raunveruleikinn segir um það að alþingismannadeild og ráðherradeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eru í reynd gegnumstreymissjóðir og það er horfst í augu við það og gert raunverulegt. Auk þess eru þessi réttindi öll sett í einn lagabálk þannig að þau verða gegnsærri og greinilegri.

Hingað til hafa menn haft það kerfi hér á landi að sumir ráðherrar og sumir þingmenn sem hætta störfum taka við sendiherrastörfum eða forstjórastöðum ríkisstofnana, kannski vegna verðleika og kannski vegna þess að verið er að bæta þeim upp ákveðið atvinnuleysi og atvinnumissi. Ég tel miklu heiðarlegra og gegnsærra að það sé gert með annaðhvort biðlaunum eða lífeyrisgreiðslum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, sérstaklega hjá þeim sem eru komnir á efri aldur og eiga erfitt með að fá vinnu vegna starfs síns. Hver vill hafa fyrrv. ráðherra vinnandi sem fulltrúa á skrifstofu hjá sér?

Þá er í frv. gert ráð fyrir því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna fái 50% hækkun á þingfararkaupinu. Þegar ég heyrði þetta fyrst var ég mjög mikið á móti því. En svo verða menn að gera sér grein fyrir því að stjórnmálaflokkarnir fá styrki frá Alþingi og gætu þar af leiðandi greitt þessum formönnum sínum beint og gera það hugsanlega. Þar er aftur verið að fela eitthvað. Þess vegna tel ég heiðarlegra og gegnsærra að þetta sé uppi á borðinu, fyrir utan það að það er greinilega geysimikil vinna fólgin í því að vera formaður flokks, sem maður hefur orðið var við þegar maður er að reyna að koma saman fundum þar sem þessir menn eiga að geta mætt.

Frv. gagnvart þingmönnum er í reynd lækkun. Það er lækkun um 1% af launum þar sem iðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 4% í 5%. Þegar ég tala um lífeyrissjóð er ég að tala um að menn borgi í hann í gegnum þennan gegnumstreymissjóð sem alþingismannadeildin er í reynd. Þannig mun hinn almenni þingmaður, sem afleiðing af þessu frv., sjá lækkun upp á um það bil 3.500 kr. á mánuði, ekki voðalega stór tala, en engu að síður um 50 þús. kr. á ári. Það eru áhrif þessa frv. á hinn almenna þingmann, hann mun sjá lækkun og ég hef ekki heyrt neinn þingmann kvarta undan því. Auk þess er makalífeyrisréttur lagaður eitthvað. Það hefur lítið komið fram í umræðunni að varaþingmenn sem koma inn í stuttan tíma kostuðu einu sinni óskaplega mikið í makalífeyri. Þeir kostuðu 1,7 millj. kr. fyrir tvær vikur, makalífeyrisrétturinn, þar sem maki þeirra var allt í einu kominn með 20% af þingfararkaupi sem makalífeyrir til æviloka ef þingmaðurinn féll frá, þingmaður sem sat inni í tvær vikur

(Forseti (HBl): Einn dag.)

og einn dag. Sat þá á þingi í tvær vikur og einn dag.

(Forseti (HBl): Ég bið afsökunar, ég ætlaði að segja í einn dag, sem dæmi er um.)

Í einn dag, já. Þetta voru því óskaplega há laun fyrir stuttan tíma. En þetta er búið að laga að einhverju leyti og í þessu frv. er þetta lagað enn frekar. Að þessu samanteknu, þar sem um er að ræða skerðingu hjá þingmönnum velflestum og gegnsærri lífeyrisrétt þessara handhafa ríkisvaldsins sem gerir það hugsanlega mögulegt, herra forseti, að laga kerfið í þá veru sem ég hef lagt til, þá skil ég þetta frv. Ég er engan veginn sáttur við kerfið, mér finnst kerfið bera vott um ákveðinn aristókratahugsunarhátt, þar sem einhverjir hópar manna eigi að hafa sérstök kjör í þjóðfélaginu sem ég er andsnúinn.

Það sem er slæmt við þetta frv. er að það kom inn með mjög stuttum fyrirvara, var ekki rætt og hefur þar af leiðandi valdið mjög miklum misskilningi í þjóðfélaginu. Almenningur horfði á þessa 50% hækkun og hélt að hv. þingheimur væri allur að hækka laun sín um 50% sem er eitthvað allt annað en reyndin, þar sem um er að ræða skerðingu með frv.

Það er dálítið vandmeðfarið hvernig þingmenn ákveða kjör sín og laun. Einu sinni ákváðu þeir þetta sjálfir og þá var það stöðugt gagnrýnt. Svo var því vísað til dómskerfisins með því að búa til Kjaradóm sem ákvað launin og hann er alltaf gagnrýndur og gerði þau mistök að mínu mati að hækka launin daginn eftir kosningar um 30% í staðinn fyrir að gera það tímanlega þannig að væntanlegir frambjóðendur vissu hvað þeirra biði. Mér þótti það mjög óþægilegt, herra forseti. Á þessu er til ein lausn sem ég hef bent á. Hún er sú að fráfarandi þing ákveði tímanlega, segjum einu og hálfu ári fyrir kosningar, hver laun komandi þings verði, þ.e. næsta kjörtímabils. Ég mundi vilja að það væri ákveðin krónutala í laun og venjuleg lífeyrisréttindi, menn gætu bara fengið lífeyrisrétt hjá þeim lífeyrissjóðum, hinum almennu, sem vilja taka við þeim, Lífeyrissjóði verslunarmanna eða bara nefna það. (Gripið fram í: LSR.) LSR er náttúrlega með ákveðinni ríkistryggingu þannig að ég verð ekki hrifinn af því ef þingmenn borguðu þangað inn því að það er ekki hinn almenni lífeyrissjóður hjá þjóðinni. Þetta hefði í för með sér að ef einhver teldi, t.d. forstöðumenn verkalýðsfélaga, sem margir hverjir eru afskaplega færir, ef þeir teldu að þetta væru há laun þá gætu þeir bara boðið sig fram til þings og séð til hvort kjósendur teldu þá vænlega til að stýra landinu. Ef þingmenn ákveða kjör næsta þings mjög há vex þar af leiðandi samkeppnin um stöðuna þannig að þeir geta hugsanlega misst sæti sitt ef þeir ákveða kjörin mjög há. Það getur nú vel verið að einhverjir þingmenn mundu jafnvel vilja hafa kjörin um 100 þúsund kr. til að tryggja sig í sessi svo að þeir misstu nú örugglega ekki þingsætið, þ.e. ef þeir teldu að þeir væru ekki nægilega hæfir, því að þetta byggist allt á því að þjóðin velji hæfasta fólkið til þings í prófkjörum og í kosningum.

Ég vil, herra forseti, að Alþingi skoði þessar leiðir.

[15:45]

Herra forseti. Hlutur fulltrúa Alþýðusambands Íslands í þessari deilu er með ólíkindum. Þeir leyfa sér að koma fram með útreikninga sem sýna mínus 4% raunávöxtun til allrar framtíðar. Á hverju byggja þeir? Þeir byggja á því að laun ríkisstarfsmanna hafa hækkað um 8% á ári síðustu átta árin umfram verðlag. Mjög gott, þökk sé styrkri stjórn ríkisstjórnarinnar, þökk sé mjög styrkri stjórn hæstv. forsrh. Þeir leyfa sér að skoða líka laun þingmanna sem hafa hækkað um 10% umfram verðlag á þessum tíma samkvæmt útreikningum þeirra. Þeir nota sem sagt mjög góðan árangur hæstv. forsrh. við stjórn landsins til að klekkja á kjörum hans. Sjaldan launar kálfurinn ofeldið, það verð ég að segja. Ég hefði talið að hæstv. forsrh. sem hefur stýrt þjóðinni í gegnum mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar frá 1991 fengi einhver verðlaun fyrir það í hugum þessara manna. Nei, þeir sjá ofsjónum yfir því að hann fái sambærileg lífeyrisréttindi og hinir handhafar ríkisvaldsins, þ.e. hæstaréttardómarar og forseti lýðveldisins. Hann er ekki með sömu laun og forsetinn, nei nei, langt í frá. Þegar skattfrelsið var afnumið af forseta lýðveldisins kom nefnilega í ljós að hann var í reynd með tvöfalt hærri laun þó að Kjaradómur hafi dæmt honum svipuð laun --- vegna skattfrelsisins --- og sá launamunur er enn.

Við erum að tala um að hæstv. forsrh. fái rétt rúmlega helming af þeim lífeyriskjörum sem forseti lýðveldisins hefur en þó sömu prósentu. Hann er bara með miklu lægri laun en forseti lýðveldisins, rétt rúmlega helming af launum forsetans.

Svo gerist það að ýmsir verkalýðsforingjar úti í bæ efna til mótmæla gegn þessari lækkun á launum þingmanna og hækkun á launum ráðherra, boða til útifundar og hóta að segja sig úr vissum þingflokkum ef ekki verður farið að vilja þeirra. (Gripið fram í: Þingflokkum?) Vissum flokkum, já, þeir eru ekki í þingflokki enda hafa þeir ekki viljað taka þessi kjör sem þingmönnum eru boðin.

Hvað eru þessir menn að gera? Þeir eru að hafa áhrif á sannfæringu þingmanna. Ég spyr: Eiga virkilega verkalýðsforingjar úti í bæ að ákveða laun þingmanna, herra forseti, og sín eigin laun líka, sem þeir gera? Laun þingmanna eru uppi á borðinu en þeirra eigin laun liggja alls ekki uppi á borðinu og þeir hafa meira að segja neitað að svara hver þau eru. Er þetta það sem við viljum, er þetta gagnsæið sem við viljum?

Svo að ég falli í þá gryfju að vera ekki eins málefnalegur og ég reyni nú að vera finnst mér þessi staða minna mig á mink sem ræðst inn í hænsnabú. Kjúklingarnir flögra um allt, inn í öll skúmaskot, af því að minkurinn --- þ.e. verkalýðsforinginn og verkalýðsforingjarnir --- er kominn inn í hænsnabúið sem er Samf. og Vinstri grænir. Þar flögra kjúklingarnir um allt í leit að skjóli og eru logandi hræddir því að þeim hefur verið hótað að ef einn þeirra greiði atkvæði með þessu frv., ef einn þeirra fylgi sannfæringu sinni, skuli verkalýðsforustan, ekki verkalýðshreyfingin, þar eru sjálfstæðismenn að sjálfsögðu, segja sig úr þessum ákveðna flokki. Mér finnst þetta mjög alvarlegt, herra forseti.

Varðandi þetta frv. sem við ræðum hér verð ég að segja að það er í sjálfu sér ekki breyting á núverandi kerfi sem ég er --- eins og ég gat um --- andsnúinn. Það gerir það samt gagnsærra og einfaldara og gerir það auk þess auðveldara að breyta því ef þingheimur skyldi vilja það. Þess vegna styð ég það, líka vegna þess að mér finnst óeðlilegt að forsrh. sé með 50% hámark á lífeyrisrétti á meðan forseti lýðveldisins er ekki með slík takmörk á sínum lífeyrisrétti. Ég vil að þessir þrír handhafar ríkisvaldsins séu með sambærileg lífeyrisréttindi, hver sem þau eru.