Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 15:51:35 (3452)

2003-12-13 15:51:35# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KHG
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil bæta örfáum orðum inn í þessa umræðu sem er búin að standa drjúglanga stund og hefur varpað skýru ljósi á afstöðu flestra flokka til þessa máls þótt vissulega skorti enn dálítið á að mönnum sé ljós afstaða Samf. til málsins, efnislega. Þeim mun skýrar hafa talsmenn þeirra í umræðunni gert grein fyrir formlegum fyrirvörum eða athugasemdum um vinnubrögð sem út af fyrir sig er ágætt að menn dragi inn í umræðuna en er auðvitað aldrei aðalatriði málsins heldur efnið sem er til umræðu.

Það er tvennt sem menn hafa einkum rætt um og hefur mátt sjá í umfjöllun um málið að þar hefur athyglin líka beinst að þeim atriðum sérstaklega umfram önnur. Ég vil aðeins fara yfir þau.

Fyrra atriðið er eftirlaunakjör forsrh., eða fyrrverandi forsrh. framtíðarinnar. Birtar hafa verið tölur sem eru eignaðar Alþýðusambandi Íslands um að kostnaðurinn við þessa breytingu verði um 240 millj. kr. gagnvart þeim sem nú situr sem forsrh. Og ég verð að segja alveg eins og er að þegar ég sá þessar tölur fannst mér að eitthvað hlyti að hafa vantað inn í útreikningsformúluna sem menn nota til þess að áætla kostnað. Það getur bara ekki staðist að fjárhæðirnar hlaupi á svona háum tölum gagnvart einum einstaklingi sem þar að auki er nú orðinn nokkuð fullorðinn. Enda kemur í ljós þegar þetta er áætlað að beiðni allshn. af Talnakönnun hf. að kostnaðurinn við ráðherrahópinn allan, ekki bara núverandi forsrh. heldur alla ráðherra, núverandi og fyrrverandi, auðvitað með ákveðnum fyrirvörum eins og gengur og gert er grein fyrir í bréfinu, geti mestur orðið 211 millj. kr. Það er lægri upphæð en þær 240 millj. kr. sem Alþýðusamband Íslands er að ætla að verði vegna eins manns.

Þá verðum við að hafa í huga að núverandi forsrh. er einn í nokkuð stórum hópi þannig að það má ætla að hlutur hans í þessari áætlun sé ekki nema brot, ég veit ekki hversu hátt brot, það kemur ekki fram, en bara miðað við fjöldann mundi ég halda að það væri frekar lítið brot ... (Gripið fram í: .... helmingur.) þannig að kostnaður vegna hans er --- ja, mundi ég halda --- alveg örugglega undir 100 millj., ég mundi segja kannski nær 50 millj. ef ég ætti að reyna að giska á það sem ég hef þó ekki forsendur til. Ég get eiginlega ekki gefið mér ágiskun með neinni sæmilegri vissu annað en að ég veit að það er aðeins brot af þessari tölu. Þetta liggur fyrir. Og mér finnst rétt að draga það sérstaklega fram vegna þess að menn hafa kosið, sérstaklega í opinberri umfjöllun fjölmiðla, að persónugera málið sem er mjög ósanngjarnt í svona máli sem fjallar um almenn réttindi. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um það efni að það er ekki rétt og ekki sanngjarnt að ræða þessi mál út frá einstökum persónum. Hér er um að ræða framtíðarskipan fyrir hóp manna og það mun verða breyting á því hverjir sitja í þessum stöðum, bæði fljótlega og svo þar á eftir, eins og menn þekkja í pólitíkinni þannig að það er ekki hægt að vega og meta svona efnisbreytingar út frá einni persónu.

Ef við skoðum útreikninga ASÍ til fulls segja þeir að kostnaðurinn við þessa einu persónu sé 502 millj., eftirlaunaskuldbindingin. Ég rýndi aðeins í blaðið sem greindi frá þessu og skoðaði forsendurnar og þær reiknuðu með 80% af launum sem væru um 716 þús. kr. á mánuði. Það þýðir um 8,6 millj. kr. á ári. Hvað er þá viðkomandi maður lengi að taka út 502 millj.? Því var haldið fram að það þyrfti að leggja til hliðar 502 millj. inn á bók til þess að eiga fyrir eftirlaunaskuldbindingum núverandi forsrh. Ef við skoðum þessar forsendur sjáum við að það er gert ráð fyrir að greiða 8,6 millj. kr. á ári. Það þýðir að hann þarf að taka út eftirlaun í 58 ár til þess að ná að taka út þessar 502 millj. Það er nú nokkuð mikið, herra forseti. (Gripið fram í.) Og það stangast nokkuð á við upplýsingar forsrh. um væntanlegan lífaldur sinn. Ef við gerum ráð fyrir því að forsrh. fari á eftirlaun á næsta ári, sem ég ætla ekkert að ýja að en við skulum bara gefa okkur að hann geri það, hefur hann töku lífeyris 56 ára gamall. Hann á þá 502 millj. í sjóði fyrir eftirlaunaskuldbindingum sínum í 58 ár þannig að hann getur greitt sér þessi laun þangað til hann verður 114 ára gamall. Ég segi nú, herra forseti, hvernig í ósköpunum getur heil deild sem kallar sig hagdeild Alþýðusambands Íslands látið frá sér fara svona vitlausa útreikninga? Ég tek undir það með varaformanni fjárln. að við eigum að skoða hvort ekki sé rétt að hækka fjárveitingar við hagdeildina til þess að auka líkurnar á því að við fáum ekki svona vitlausa útreikninga þaðan aftur. (Gripið fram í.)

Ég vil bæta því við að ég vil treysta því og hef haft ástæðu til þess að treysta því lengst af að hagdeild Alþýðusambands Íslands sé virðuleg stofnun innan sambandsins, skipuð fólki sem vill láta taka störf sín alvarlega en ekki vera þátttakendur í einhverjum pólitískum ólgusjó. Og ég ætla bara að vona að menn láti sér þessi mistök að kenningu verða og hætti að framleiða útreikninga í pólitísku skyni til þess að hafa áhrif á þingmenn í tilteknum flokki eða flokkum. Ef þeir ætla sér að hafa áhrif á alþingismenn almennt til breytinga á málum, sem mér finnst auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að verkalýðshreyfingin á hverjum tíma reyni að gera eftir því sem skoðanir hennar standa til, verða menn að styðjast við upplýsingar sem eru sannar og réttar og byggðar á eðlilegum forsendum. Felst þó ekki í þessum orðum mínum að ég útiloki að forsrh. geti orðið 114 ára gamall. Mér finnst það hins vegar ekki líklegt.

Þetta vildi ég draga fram, herra forseti, þannig að það færi ekki á milli mála að þessar upplýsingar sem hér hafa verið lagðar inn í umræðuna af formanni allshn. gera það að verkum að þær upplýsingar sem menn hafa haft í umræðunni síðustu daga, sendar frá Alþýðusambandi Íslands, eru ekki á neinum rökum reistar. Það er rétt að menn ræði þá málið, bæði þetta atriði frv. og önnur, á þeim upplýsingum sem reynast sannar og réttar.

[16:00]

Hitt atriðið sem menn hafa beint spjótum sínum að er hvort greiða eigi formönnum stjórnmálaflokka álag á þingfararkaup séu þeir ekki jafnframt ráðherrar. Á því geta menn haft skiptar skoðanir. Ég sé ekkert athugavert við það að sumir hafi þá skoðun að þetta eigi ekki að gera og aðrir hafi þá skoðun að þetta eigi að gera. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þetta sé sjálfsagt og eðlilegt. Um þetta hafa þingmenn rætt í mörg ár. Það get ég upplýst enda hef ég tekið þátt í þeim samtölum.

Ég hef verið þess hvetjandi í gegnum árin að menn lögleiddu þessa hluti til að gera formönnum stjórnmálaflokkanna, sérstaklega formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, kleift að sinna starfi sínu af fullum þunga. Það að vera formaður í stjórnmálaflokki í stjórnarandstöðu er ekki lítið verk. Það er ekkert minna verk en að vera ráðherra. Það held ég að menn geti gengið úr skugga um með einfaldri athugun málsins, líka þingmenn Vinstri grænna. Ég er ekki í vafa um að formaður þeirra hefur lagt mikið á sig í gegnum tíðina og unnið langa daga og fram á nætur við að sinna hlutverki sínu sem einn af talsmönnum stjórnarandstöðunnar. Þeir mættu muna það þegar þeir taka afstöðu að það er rétt að sá sem er í þeirri stöðu njóti þeirra kjara að á engan hátt sé hægt að brigsla honum um að efnahagslegar aðstæður ráði skoðunum hans.

Ég vil spyrja hina sem eru þeirrar skoðunar að það eigi ekki að greiða álag: Telja þeir þingmenn að þegar mál skipast þannig að flokkur þeirra fer í ríkisstjórn og formaður flokksins verður ráðherra eigi hann ekki að taka við þeim ráðherralaunum? Eru menn að halda því fram? Það hljóta menn að verða að gera ef þeir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér. Það er ekki hægt að halda því fram að ósanngjarnt og óeðlilegt sé að formaður í stjórnarandstöðuflokki fái ekki álag á þingfararkaup en það sé eðlilegt ef hann er ráðherra og vinnur starfið sem slíkur. Starfið er jafnt eftir sem áður. Það fullyrði ég og bið þá sem eru annarrar skoðunar að koma upp og gera grein fyrir því á hvern hátt þeir telja starf formanns stjórnmálaflokks veigaminna í stjórnarandstöðu, svo veigalítið að það verðskuldi ekki álag á þingfararkaup. Þetta vildi ég biðja menn að hugleiða og færa rök fyrir þannig að við gætum fengið öll rökin upp á borðið, með eða á móti. Mín afstaða er alveg klár. Ég mun eindregið styðja þetta ákvæði og greiða atkvæði gegn brtt. sem rýra áhrif þess.

Ég vil líka benda á það sem ekki hefur komið fram í umræðunni, að ákvæðið er auðvitað ekki bundið við formenn í stjórnarandstöðuflokki. Auðvitað getur, eins og dæmi eru um í fortíðinni, formaður stjórnmálaflokks sem er í ríkisstjórn kosið að sitja utan ríkisstjórnar. Og það er ekkert að því ef sá formaður velur það hlutskipti að sinna starfi sínu sem formaður flokks en vera ekki jafnframt ráðherra. Það eru til dæmi um það. Við þekkjum það úr Framsfl., fyrrv. formann Framsfl., Hermann Jónasson, sem kaus stundum að vera ekki í ríkisstjórn sem flokkurinn átti aðild að.

Herra forseti. Þriðja atriðið sem ég vildi reifa í þessari umræðu varðar trúverðugleika flokkanna sem standa að þessu máli. Ég verð að segja, herra forseti, að mér hefur fundist nokkuð dapurlegt að sjá hvernig menn hafa brugðist við eftir að málið var lagt fram í ljósi aðdraganda þess. Allir flokkar komu að málinu. Formenn allra flokka komu að málinu. Það var samið og efnisatriðin ákveðin með þeim. Það er vegna þeirra stuðnings sem málið er lagt fram og vegna þeirra stuðnings sem þingmenn þeirra ákveða að styðja það að málið sé lagt fram. Það er á þeim forsendum sem málið er t.d. kynnt fyrir okkur í þingflokki framsóknarmanna. Þetta er ekki ríkisstjórnarfrumvarp, þetta er þingmannafrumvarp. Okkur er kynnt málið þannig að allir flokkar standi að því, allir formenn styðji það og það verði samþykkt í öllum þingflokkum, sem reyndin varð og málið var lagt fram.

Síðan þegar umræðan í þjóðfélaginu er komin í gang fer að gerast nokkuð sem ég átti ekki von á að sjá. Þá fer að koma í ljós að einstakir flutningsmenn málsins eru með fyrirvara. Það kemur hvergi fram í málinu sem dreift var á borð þingmanna að fyrirvarar séu af hálfu einstakra flutningsmanna við einstök efnisatriði málsins. Hvers vegna gera menn ekki grein fyrir fyrirvörum sínum við framlagningu málsins? Ég vil svara þeirri spurningu sjálfur. Það er vegna þess að fyrirvararnir voru ekki fyrir hendi. Þeir komu til seinna þegar menn fóru að bregðast við utanaðkomandi þrýstingi.

Við sjáum í hvaða stöðu málið er gagnvart Vinstri grænum og Frjálsl. Þessir flokkar hafa algjörlega snúist gegn málinu að öðru leyti en því að einn flutningsmanna, hv. þm. Þuríður Backman, ætlar að styðja flest efnisatriði málsins en þó ekki öll.

Hvað er hér á ferðinni? Hér hafa utanaðkomandi aðilar haft áhrif á þingmenn sem voru búnir að taka afstöðu í málinu og ákveða að flytja málið. Þeir draga til baka stuðning sinn og fara að tala gegn því. Ég velti fyrir mér: Hvernig á að vera hægt að vinna með þessum flokkum í ríkisstjórn? Gerum okkur í hugarlund að stjórnarandstaðan hefði fengið meiri hluta á þingi í kosningunum 10. maí og að þessir þrír flokkar hefðu myndað ríkisstjórn. Þeir hefðu komið sér saman um að flytja þingmál, þetta eða eitthvert annað. Svo þegar búið er að flytja málið og sýna það færu að koma viðbrögð frá hagsmunaðilum eða einhverjum sem væru óánægðir með einstök efnisatriði. Á hverju eiga menn von sem eru með slíkum flokkum í ríkisstjórn? Þeir geta alveg eins átt von á að flutningurinn breytist yfir í fyrirvaratengdan flutning, að flestir þingmenn flokkanna snúist gegn málinu og áður en menn vita af væri mál, jafnvel stjfrv., löngu fokið út í veður og vind áður en það kæmi til 1. umr.

Þessi reynsla hefur dæmt þessa tvo flokka algjörlega úr leik um sinn. Þeir eru ekki hæfir til að vera í ríkisstjórn af því að þeir geta ekki fylgt málum eftir frá upphafi til enda.

Tökum nú Samf. (Gripið fram í.) Hér sjáum við einn hv. þm. Samf. Það er ekki svo illa komið fyrir henni sem þessum tveimur flokkum, ekki enn þá. Það skýrist á eftir hvernig þeir ætla að taka á þessu máli. Við vitum þó að þeir stóðu að því að undirbúa málið. Formaður þeirra stóð að því að samþykkja að leggja málið fram. Þeir lögðu til flutningsmann og þingflokkur þeirra samþykkti að leggja málið fram. Mönnum var alveg ljóst að ætlunin var að afgreiða málið á tiltölulega skömmum tíma.

Hvað gerist? Hér rísa allt í einu upp menn í þjóðfélaginu og hóta að segja sig úr Samf. ef frv. verði að lögum eða jafnvel ef Samf. styður málið eða jafnvel ef aðeins einn þingmaður Samf. styður málið. Þá fer allt í böggling. Það endar með því að Samf. dregur stuðning sinn til baka í allshn. Við vitum svo sem ekki hvernig línur liggja innan þess þingflokks varðandi málið.

Fyrsti talsmaður flokksins í málinu, hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, kom með mjög merkilegt innlegg í umræðuna í morgun. Hún hélt því fram að Samf. hefði aldrei samþykkt að styðja málið, aðeins samþykkt að leggja það fram. Ég fer að velta fyrir mér: Bíddu við, hvað ef við værum í ríkisstjórn með Samf. og við værum að leggja fram mál sem við vissum að yrði umdeilt, t.d. í sjávarútvegsmálum, þar gæti verið eitthvað til að tala um? Við ætluðum kannski að gera einhverjar breytingar, kannski línuívilnun eða eitthvað svoleiðis, og flokkarnir væru búnir að ná saman um slíkt. Þá yrði lagt fram stjfrv. Svo kæmi LÍÚ eða einhverjir slíkir kappar og færu að yggla sig og segja: Við hótum að segja okkur úr Samf. Þá væri bara allt fokið út, stjfrv. búið, enginn meiri hluti fyrir hendi.(Gripið fram í: Eins og hænsnahópur.) Hér tala menn um hænsnahóp, ég veit ekki hvað menn eiga við með því. (JBjarn: Framsóknarflokkinn.) En ég velti því fyrir mér: Er hægt að vera í ríkisstjórn með slíkum flokki?

Mér finnst þetta ekki spurning um efnisatriði málsins, þau eru meira og minna útrædd. Þetta er orðin spurning um trúverðugleika stjórnarandstöðuflokkanna. Eru það flokkar sem ætla að vera í stjórnarandstöðu og hafa ákveðið að vera í stjórnarandstöðu af því að það er svo þægilegt líf, menn þurfa aldrei að axla neina ábyrgð og aldrei að styðja nein mál sem þeir eru ekki að öllu leyti sáttir við. Menn geta bara alltaf verið á móti öllu, alltaf. (Landbrh.: Um hvað er þessi Samfylking?) Eða ætla menn að verða stórir og verða ríkisstjórnarflokkur? Samf. stendur í þeim sporum að menn bíða eftir svarinu. Hvar ætlar hún að lenda í þessu máli?

Það er makalaust að heyra uppleggið hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur sem snerist um tvennt. Í fyrsta lagi snerist það um að koma höggi á formann flokksins, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það var upplýst í umræðunni að aðalkrafan frá þingmanninum var að ákvæðinu um álag til formanna stjórnmálaflokka yrði breytt þannig að formaðurinn gæti fengið álag þó að hann sæti ekki á þingi. Auðvitað er þessi krafa hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur ekkert annað en árás á formann Samf., hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það hljóta allir að sjá að í þessu endurspeglast valdabarátta innan flokksins þar sem vegið er að formanni flokksins.

Í öðru lagi var það aðalatriðið í málflutningi hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að vega að öðrum þingmanni en hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Hún var að vega að keppinaut sínum um oddvitasæti í Suðvesturkjördæmi, hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, formanni Alþfl. Hann er til enn þá. Hann gæti kannski farið að bjóða fram aftur. Kannski verður atkvæðagreiðslan í þingflokki Samf. þannig á eftir að væntanlegur þingflokkur Alþfl. styðji málið. Hver veit?

Mér fannst þetta ómaklegur málflutningur í garð þessara tveggja þingmanna, hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar og Össurar Skarphéðinssonar. Ég bíð spenntur eftir því að sjá hvaða vegferð Samf. ætlar sér á næstu árum. Ætlar hún sér að halda áfram á þeirri braut að reyna að verða flokkur sem yrði til einhvers gagns í þjóðfélaginu eða ætlar hún að verða hópur, eins og kallað var fram í áðan, af tiltekinni tegund?

Herra forseti. Ég held að ég bæti ekki meiru við umræðuna af minni hálfu. Ég vonast til að sem fyrst skýrist hvernig atkvæði í þessu máli falla á eftir.