Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:15:04 (3454)

2003-12-13 16:15:04# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi málefni öryrkja sem hér hafa mikið verið til umræðu og bætur til þeirra þá er nú sannast sagna niðurstaða þess máls sú að þeir hefðu ekki fengið neinar kjarabætur á þessu þingi ef allir þingmenn aðrir hefðu tekið sömu afstöðu og þingmenn Vinstri grænna og annarra stjórnarandstöðuþingmanna. Þeir gátu ekki stutt þá tillögu sem við greiddum atkvæði um í gær um að bæta kjör öryrkja um 1 milljarð kr. Þeir gátu ekki stutt hana heldur sátu hjá. Ef allir aðrir hefðu fylgt fordæmi þeirra hefði sá hópur sem þeir hafa talað svo mikið fyrir ekki fengið eina einustu bót sinna mála. Það var mikil reisn eða hitt þó heldur yfir þessum ágætu flokkum. (Gripið fram í: Heyr.)