Eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara

Laugardaginn 13. desember 2003, kl. 16:36:47 (3467)

2003-12-13 16:36:47# 130. lþ. 50.2 fundur 447. mál: #A eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara# frv. 141/2003, BH (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Bryndís Hlöðversdóttir (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Samfylkingin féllst á að þetta mál yrði lagt fram til þinglegrar meðferðar en í því felst ekki óútfyllt ávísun á skilyrðislausan stuðning við frv. óbreytt. Samfylkingin getur undir engum kringumstæðum sætt sig við að mál á borð við það sem hér er til umræðu sé keyrt fram án þess að tækifæri gefist til málamiðlana og skoðunar á álitamálum sem upp koma í vinnu málsins.

Hingað til hafa slík mál verið unnin í starfsnefnd þingflokksformanna og gefinn sá tími sem þarf til að vinna málið og skoða alla þætti þess og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Nú hefur meiri hlutinn rofið þessa hefð og keyrir málið áfram sem stjórnarliðamál. Í ljósi þess getur þingflokkur Samfylkingarinnar ekki stutt þetta mál og vísar allri ábyrgð á því á hendur ríkisstjórninni.