Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 193  —  191. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., nr. 75/2001.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



1. gr.

    3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lögin fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 75/2001, um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf., fer samgönguráðherra með eignarhlut ríkisins í fyrirtækinu. Er það frávik frá þeirri skipan sem almennt var komið á meðferð slíkra eigna með 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu um staðfestingu hennar nr. 96/1969, en þar segir að fjármálaráðuneytið fari með mál er varða „eignir ríkisins, þar á meðal verðbréf og hlutabréf, svo og fyrirsvar þeirra vegna, meðal annars að því er tekur til stjórnar fyrirtækja í eigu ríkisins að öllu leyti eða nokkru, nema lagt sé til annars ráðuneytis“. Ríkisstjórnin hefur með hliðsjón af þessu ákvæði ákveðið að fjármálaráðherra skuli taka við meðferð hlutafjár ríkisins í Landssímanum í stað samgönguráðherra, enda getur í ljósi þeirrar starfsemi, sem fyrirtækið sinnir, verið óheppilegt að handhöfn þess sé hjá sama ráðherra og fer með mál er varða síma og önnur fjarskipti, sbr. 9. tölul. 11. gr. sömu reglugerðar um stjórnarráðið, sbr. og 2. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003.
    Í samræmi við framangreinda ákvörðun er með frumvarpi þessu leitað eftir viðeigandi breytingum á lögum nr. 75/2001, en af áðurnefndum 2. tölul. 5. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands og 8. gr. samnefndra laga nr. 73/1969 leiðir, að meðferð hlutafjár ríkisins í fyrirtækinu færist við gildistöku laganna til fjármálaráðherra. Að þessu athuguðu þarfnast einstakar greinar frumvarpsins ekki frekari skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 75/2001,
um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

    Með frumvarpinu er lagt til að fjármálaráðherra fari með hlutabréf ríkissjóðs í Landssíma Íslands í stað samgönguráðherra. Verði frumvarpið að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð.