Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 206. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 217  —  206. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um skattaívilnanir vegna gjafa og framlaga til mannúðar- og menningarmála.

Flm.: Einar Karl Haraldsson, Guðrún Ögmundsdóttir,


Helgi Hjörvar, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd til að endurskoða lagareglur um skattaívilnanir vegna gjafa til mannúðar- og menningarmála. Í tillögum sínum hafi nefndin að markmiði að heimilaður verði frádráttur frá tekjum einstaklinga vegna gjafa og framlaga til líknar- og hjálparstarfs og menningarmála og að rýmkaðar verði núgildandi heimildir til frádráttar í sama skyni frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Höfð verði hliðsjón af lögum og reglum sem gilda um skattaívilnanir vegna gjafa til menningar- og góðgerðarmála í helstu viðmiðunarlöndum Íslands.

Greinargerð.


    Í flestum löndum hvetja stjórnvöld bæði einstaklinga og fyrirtæki til þess að gefa til mannúðar- og menningarmála með margs konar skattaívilnunum. Viðurkennt er að líknar- og hjálparsamtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, og starfa jafnt á innlendum og alþjóðlegum vettvangi, hafi mikilvægu hlutverki að gegna og hvarvetna þykir ástæða til þess að styðja óeigingjarnt starf þeirra með þessum hætti. Hið sama gildir um framlög til menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa.
    Samkvæmt íslenskum skattareglum hafa einstaklingar ekki heimild til að draga gjafir til góðgerðar- og menningarmála frá skattskyldum tekjum og verður ekki séð að sérstök rök séu fyrir þeirri sérstöðu. Allar gjafir eru í raun skattskyldar, hvort sem um er að ræða beinar gjafir í peningum eða öðrum verðmætum. Þá hefur lausleg könnun nokkurra starfsmanna íslenskra hjálparsamtaka leitt í ljós að Ísland er einnig það land sem veitir minnstar skattaívilnanir til fyrirtækja vegna framlaga til mannúðarmála af þeim sjö löndum þar sem fyrirkomulag á þessu sviði var kannað.
    Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga, samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, einstakar gjafir og framlög til kirkjufélaga og viðurkenndrar líknarstarfsemi, þó ekki yfir 0,5% af tekjum á því ári sem gjöf er afhent. Hið sama gildir um gjafir og framlög til menningarmála og vísindalegra rannsóknarstarfa sem og stjórnmálaflokka. Fjármálaráðherra hefur ákveðið með reglugerð hvaða málaflokkar og stofnanir hér um ræðir.
    Á allmörgum þingum, síðast á 128. löggjafarþingi, hefur verið til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem Ágúst Einarsson var fyrsti flutningsmaður að. Þar var gerð tillaga um lögfestingu þess að lögaðilar mættu draga tvöfalda þá fjárhæð frá tekjum sem þeir verja til menningarmála, kvikmyndagerðar og vísindastarfsemi. Ef fyrirtæki gæfi 100 þús. kr. til menningar- og vísindastarfsemi mætti það samkvæmt frumvarpinu draga 200 þús. kr. frá útgjöldum en einungis 100 þús. kr. samkvæmt núgildandi lögum. Þetta frumvarp hafði talsverðan hljómgrunn á þingi og fékk mjög jákvæðar umsagnir aðila sem þekkja vel til mála. Tvöföldunarreglan mundi hvetja fyrirtæki til að auka framlög sín, enda lækkuðu skattskyldar tekjur þeirra þar með. Væri slík regla lögfest ætti hún skýlaust einnig að gilda um framlög til mannúðarmála.
    Miðað við það sem þekkist meðal annarra þjóða væri ekki heldur úr vegi að dómi flutningsmanna að lögaðilar, sem gefa til mannúðar- og menningarmála, hefðu heimild til þess að draga hærri prósentu en 0,5% frá tekjum, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum, áður en byrjað er að greiða skatt. Í því sambandi má benda á að í Bandaríkjunum er frádráttarprósentan 10% og 15% í Danmörku.
    Enda þótt víðast séu í gildi reglur um skattaívilnanir til einstaklinga sem gefa til mannúðar- og menningarmála þá eru þær mjög mismunandi eftir löndum. Mismunandi er hvort skattafslátturinn kemur fram hjá samtökunum eða verkefninu sem um ræðir, einstaklingnum eða báðum aðilum. Mestu skiptir hér að finna leið sem hentar við íslenskar aðstæður en ekki er fjarri lagi frá sjónarhóli flutningsmanna að gera ráð fyrir heimild fyrir einstaklinga til þess að draga allt að 100 þús. kr. frá tekjum vegna gjafa til menningar- og mannúðarmála, áður en byrjað er að greiða skatt.
    Lagt er til að nefndin hafi til hliðsjónar lög og reglur í helstu viðmiðunarlöndum Íslands við samningu tillagna sinna, og taki afstöðu til þess hvort skilgreina þurfi og flokka hjálpar- og líknarsamtök nánar en nú er gert, og gera skilsmun á skattafslætti til menningarmála eftir því hvers eðlis starfsemin er. Jafnframt sé nefndinni falið að skoða möguleika á því að undanþiggja menningar- og góðgerðarsamtök, sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni, greiðslum á fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti.
    Almennt er talið að það sé æskilegt markmið að hjálpar- og líknarsamtök fái aflafé sitt úr sem flestum áttum, og séu ekki um of háð neinum einum aðila, hvort sem um er að ræða ríki, trúfélög, fyrirtæki eða einstaklinga. Endurskoðun á lagareglum um skattaívilnanir vegna gjafa til mannúðarmála þjónar þeim tilgangi að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir starfsemi frjálsra félagasamtaka sem slíkum málum sinna. Í nýlegri úttekt á framlögum Íslendinga til þróunarhjálpar og þróunarsamvinnu var leitt í ljós að landsmenn eru síst eftirbátar annarra þjóða í frjálsum gjöfum til hjálparsamtaka á þessu sviði. Því má ætla að frekari hvatning frá ríkisvaldinu muni skila sér í myndarlegu framlagi frá almenningi og fyrirtækjum til mannúðarmála á næstu árum.
    Mikill sköpunarkraftur er fólginn í íslenskri menningarstarfsemi og má ætla að hlutur hennar í þjóðarframleiðslu sé vel yfir 3% um þessar mundir. Skattaívilnun á þessu sviði, eins og hér er gert ráð fyrir, yrði lyftistöng fyrir frjálsa leikhópa, kvikmyndagerð, tónleikahald og aðra menningarstarfsemi, og leiddi til aukinna umsvifa sem síðar skila tekjum í ríkissjóð, m.a. í formi virðisaukaskatts eða tekjuskatts einstaklinga.
    Ástæða er til þess að hvetja fyrirtæki og einstaklinga með skattaívilnun til þess að styrkja vísindastarfsemi vegna þess hve ráðandi hún er um framtíðarvelferð í þekkingarþjóðfélagi. Starfsemi innan æðri menntastofnana þarf að efla með ráðum og dáð og gildir það jafnt um meginfræðasvið háskóla: hugvísindi, raunvísindi, félagsvísindi og heilbrigðisvísindi.