Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 179. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 286  —  179. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um inn- og útflutning eldisdýra.

     1.      Hafa eldisdýr verið flutt til landsins frá því að bráðabirgðalögin um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, lögum um innflutning dýra og lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim voru undirrituð af forseta Íslands 1. júlí sl. og ef svo er, hve mikið af eldisdýrum og hvaða tegundir?
    Já. Það eina sem flutt hefur verið inn er ferskvatnsrækja (Macrobrachium rosenbergii), sem flutt hefur verið inn á vegum Orkuveitu Reykjavíkur frá rækjueldisstöð á Nýja-Sjálandi. Umsóknarferillinn fyrir innflutninginn hófst árið 1999, fisksjúkdómanefnd fór ítarlega yfir allt málið og sendi m.a. fulltrúa sinn, dýralækni fisksjúkdóma, í vettvangskönnun. Þær sendingar sem komið hafa eftir að bráðabirgðalögin voru sett eru samtals fjórar, 12. júlí, 18. september, 2. október og 23. október 2003. Samtals hafa komið 1.707 lifandi rækjur. Öllum rækjum er haldið í sérstakri einangrunarstöð í Höfnum á Reykjanesi.

     2.      Hve mikið af eldisdýrum og af hvaða tegundum hefur verið flutt út frá Íslandi frá því að bráðabirgðalögin tóku gildi?
    Það sem flutt hefur verið út af eldisdýrum/erfðaefnum eru laxahrogn og lifandi lúðuseiði. Sendingar af laxahrognum eftir 1. júlí sl. eru eftirfarandi í réttri tímaröð:
                  1.      29. júlí 2003: 320.000 hrogn (um 62 lítrar) af laxahrognum til Írlands.
                  2.      7. ágúst 2003: 630.000 hrogn (um 121 lítri) af laxahrognum til Skotlands.
                  3.      21. ágúst 2003: 105.000 hrogn (um 20 lítrar) af laxahrognum til Írlands.
    Sendingar af lifandi lúðuseiðum eftir 1. júlí sl. eru eftirfarandi í réttri tímaröð:
              1.      7. júlí 2003: 37.000 stk. (5,5 grömm) til Noregs.
              2.      10. júlí 2003: 37.000 stk. (5,5 grömm) til Noregs.
              3.      25. júlí 2003: 32.000 stk. (6 grömm) til Noregs.
              4.      30. júlí 2003: 30.000 stk. (6,7 grömm) til Noregs.
              5.      19. ágúst 2003: 21.000 stk. (6 grömm) til Noregs.
    Vakin er sérstök athygli á því að mikill afturkippur kom í allan útflutning eftir 18. júní sl., bæði á laxahrognum og lúðuseiðum, þegar boð komu frá Brussel um að þjóðir á EES-svæðinu mættu ekki flytja inn eldisdýr/erfðaefni frá Íslandi.
    Þetta varð til þess að afpantaður var fjöldi hrognasendinga sem fara áttu til Skotlands og Írlands. Öll hrognin voru undan foreldrafiski sem kreistur var í vor. Í október hófst svo næsta kreisting og er reiknað með að næsta útflutningslota byrji í desember og standi fram á árið 2004. Einnig hefst útflutningur til Chile aftur í ársbyrjun 2004 eins og undanfarin ár.
    Áætlað hafði verið að senda nokkra tugi þúsunda lúðuseiða til Skotlands í lok júní og byrjun júlí, en kaupendurnir hættu við. Áformin hafa nú breyst aftur og eru áætlaðar sendingar í lok þessa árs. Þá var ákveðið að sending færi til Noregs 30. október.

     3.      Hvert er verðmæti þessa útflutnings í krónum talið?

    Heildarverðmæti þessa útflutnings janúar–ágúst 2003 nam um 159 millj. kr., samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands, en áætlanir útflytjenda gera ráð fyrir að heildarverðmætið nemi 570–650 millj. kr. árið 2003.