Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 285. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 326  —  285. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sambúð laxeldis og stangveiði.

Flm.: Einar Karl Haraldsson, Össur Skarphéðinsson, Bryndís Hlöðversdóttir,


Lúðvík Bergvinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásgeir Friðgeirsson.

    
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að setja á laggir fimm manna nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila er leiti leiða til að laxeldi og stangveiði geti farið saman án deilna milli greinanna tveggja. Nefndin safni í því skyni saman öllum tiltækum vísindalegum gögnum um rannsóknir á afkomu, æxlunarþrótti og lífsleikni eldislaxa og blendinga villtra laxa og eldislaxa við náttúrulegar aðstæður.
    Nefndin skili skýrslu um niðurstöður sínar þar sem lagt er mat á hvort og þá hversu sterk áhrif strokufiskur úr eldiskvíum geti haft á viðgang villtra stofna. Jafnframt leggi nefndin fram tillögur um hvernig sambúð greinanna verði háttað þannig að sem minnstir árekstrar verði vegna ólíkra hagsmuna.

Greinargerð.


    Deilur hafa risið á milli stangveiðimanna og laxeldismanna vegna ótta hinna fyrrnefndu við að strokulaxar úr sjókvíum muni ganga í ár, spilla hrygningu villtra stofna og leiða til óæskilegrar erfðablöndunar. Ótti stangveiðimanna stafar af því að laxeldi virðist nú í mikilli sókn hér á landi. Aukninguna má alla reka til fárra en stórra aðila sem hafa komið inn í greinina og sameina aðgang að nýrri tækni, miklu fjármagni og öflugu markaðskerfi fyrir laxeldisafurðir. Til marks um sóknina í laxeldisleyfi má nefna að nú þegar er búið að fá leyfi fyrir eldi á meira en 20 þús. tonnum. Stærsta eldisstöðin sem áformað er að setja á laggir mun samkvæmt áætlunum framleiða fast að 8 þús. tonnum af laxi fáist tilskilin leyfi. Það er meira en nokkur einstök eldisstöð framleiðir í heiminum. Stangveiðimenn kvíða þó mest meintum áhrifum kynbætts norsks stofns, sem einvörðungu er notaður í sjóeldið hér á landi. Stofninn vex mun hraðar en innlendir stofnar, og hefur verið kynbættur sérstaklega til að ná fram síðbúnum kynþroska. Sá eiginleiki tryggir mikinn og langvarandi vöxt þar sem laxinn er löngu kominn í sláturstærð þegar hann verður kynþroska. Eldismenn benda á að síðbúinn kynþroski tryggi að strokulax muni engin áhrif hafa á villta stofna þar sem hann verði löngu horfinn úr vistkerfi sjávarins áður en hann verði kynþroska.
    Um þetta atriði er deilt. Landbúnaðarráðherra hefur takmarkað laxeldi í sjókvíum við það sem hann kallar sjálfur langa, mjóa og djúpa firði á Austurlandi, og staðhæfir að strokulax þaðan gangi til Færeyja. En þar er ekki að finna náttúrulegan laxastofn samkvæmt upplýsingum sem fram komu hjá Gísla Jónssyni, dýralækni fisksjúkdóma, á fundi Stangaveiðifélags Reykjavíkur (SVFR) á Grand Hótel 5. nóvember sl. Stangveiðimenn telja þetta alrangt. Að þeirra mati getur kynbættur norskur lax dvalið og vaxið í hafinu úti fyrir Austurlandi og gengið sem stórlax í austfirsku árnar og spillt stórlega hrygningarsvæðum og erfðamengi náttúrulega laxins.
    Í svari landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar (180. máli þessa þings) kemur fram að 3.053.000 laxa hafa verið settir í sjókvíar í Mjóafirði árin 2001, 2002 og 2003. Þar eru nú í sjókvíum 2.068.000 laxa og 260.983 hefur verið slátrað. Jón Gunnarsson vakti athygli á því í umræðum á Alþingi 7. nóvember að samkvæmt þessu hefðu 724.000 laxar annaðhvort sloppið úr kvíunum eða drepist í þeim. Engin svör fengust um afdrif þeirra. Ráðherra landbúnaðarmála hefur jafnan fullyrt að enginn eldislax sleppi úr kvíum.
    Styrr stendur um fjölmargar aðrar staðhæfingar af hálfu hinna ýmsu aðila deilunnar. Þetta kom glöggt fram á fyrrnefndum fundi SVFR 5. nóvember. Vigfús Jóhannsson, líffræðingur og formaður Landssambands fiskeldisstöðva, staðhæfði að engar vísindalegar rannsóknir lægju fyrir sem bentu til þess að eldisfiskur spillti villtum stofnum. Guðni Guðbergsson, deildarstjóri og fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, hélt hinu gagnstæða fram í erindi á fundinum og taldi margar nýlegar vísbendingar úr rannsóknum styðja fullyrðingar um spillingu stofna af völdum eldis.
    Athygli vekur að sérfræðingar virðast ekki einu sinni sammála um staðreyndir sem hægt er að sannreyna tölulega. Þannig hélt einn fiskifræðingur því fram á upplýsingafundi SVFR að tíðni strokulaxa úr eldi væri 2–3% en annar staðhæfði að meðaltal sl. 3 ára væri 0,1% og töldu báðir sig styðjast við alþjóðlegar reynslutölur. Sömuleiðis virðast vera á kreiki misvísandi upplýsingar úr rannsóknum um æxlunarþrótt eldislaxa og blendinga þeirra og villtra laxa, hegðun þeirra í búsvæðum villtra stofna í ám, og lífsþrótt seiða sem undan þeim koma. Þá eru sérfræðingar ekki heldur á einu máli um hvaða afleiðingar strokulaxar hafi haft á náttúrulega laxastofna, og er sláandi til dæmis hversu munur er mikill á upplýsingum annars vegar frá Vesturheimi og hins vegar frá Norður-Evrópu.
    Flutningsmenn telja því að það væri hið þarfasta mál að skipa nefnd sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaaðila sem fengi það hlutverk að safna saman þeim upplýsingum sem til eru, eða eru að koma fram í rannsóknum um þessar mundir, meta þær og greina, og setja fram með skilmerkilegum hætti. Efalítið gæti það orðið til að eyða röngum staðhæfingum úr umræðunni, og gera mönnum kleift að ræða ólíka hagsmuni greinanna á sameiginlegum grunni. Þegar því er lokið ætti slík nefnd, sem hér er lagt til að verði stofnuð, sömuleiðis að geta komið með ábendingar um leiðir sem gætu tryggt sambúð stangveiði og laxeldis með sem minnstum hugsanlegum árekstrum.