Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 373  —  87. mál.




Nefndarálit



um frv. til fjáraukalaga fyrir árið 2003, sbr. lög nr. 58/2003.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Í frumvarpi til seinni fjáraukalaga fyrir árið 2003 er lagt til að útgjöld ríkissjóðs verði aukin um rúma 8 milljarða kr. Enn fremur liggja fyrir tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar um aukin útgjöld sem nema rúmum 4,1 milljarði kr. Samtals liggja því fyrir tillögur um 12,1 milljarðs kr. aukningu á fjárlögum ársins 2003 í því frumvarpi til fjáraukalaga sem hér er borið fram. Áður hefur Alþingi samþykkt að auka útgjöld ríkissjóðs um samtals 4,7 milljarða kr. frá því sem ákveðið var í fjárlögum. Það stefnir því í aukningu útgjalda um 16,8 milljarða kr. frá því að fjárlög voru samþykkt fyrir um ári síðan.
    Í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fyrir hvert reglulegt þing heldur fer það eftir þörfinni hverju sinni. Í reyndinni er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári. En í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær er heimilt að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.
    Þau fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarpið kveður á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, voru að stórum hluta fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga fyrir ári. Svo virðist sem menn hafi kosið að horfast ekki í augu við þann vanda svo að hægt væri að skila fjárlögum með afgangi á kosningaári.

Breytt vinna við fjárlagagerð.
    Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hefur flutningsmaður nefndarálits þessa tvívegis mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um fjárreiður ríkisins. Þær fela í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir lög fyrri hluta árs en þau geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst, eins og dæmin sanna, og bregðast þarf við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd tæki þau mál til meðferðar og legði fram fjáraukalagafrumvarp sem yrði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög væri hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Með þessum hætti gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum, eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.
    Enn fremur hefur flutningsmaður lagt til að vinnunni við fjárlagagerðina verði breytt. Nú hefst undirbúningur að fjárlagavinnu hvers árs á fyrri hluta ársins á undan, þ.e. í apríl. Vegna þessa væri rétt að ríkisstjórnin legði fram frumvarp eða ramma að fjárlögum næsta árs fyrir þinglok og það yrði rætt áður en vorþingi lyki. Í raun yrði þar samþykktur ramminn sem unnið yrði eftir við undirbúning fjárlaga næsta árs. Eftir slíka meðferð þingsins gæti framkvæmdarvaldið síðan haldið áfram að undirbúa fjárlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra legði síðan fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar í upphafi haustþings. Með þessu móti væri fjárlagafrumvarpið unnið í meiri samvinnu við Alþingi en nú er og á eðlilegri ábyrgð þess.

Alþingi ber ábyrgðina.
    Þegar fjáraukalög undanfarinna ára eru skoðuð sést að oft fá sömu stofnanir eða fjárlaganúmer aukafjárveitingu. Þetta vekur upp spurningar um vinnubrögð við fjárlagafrumvarpið. Með hliðsjón af þessu er mikilvægt að fjárlaganefndin fái fullan aðgang að fjárlagatillögum einstakra stofnana og að þær hafi fullt frelsi til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við fjárlaganefnd. Flestar stjórnsýslustofnanir gegna víðtæku hlutverki í að framfylgja ákvæðum laga og veita skilgreinda þjónustu á grundvelli þess lagaramma sem stofnunum og forstöðumönnum þeirra ber að fara eftir. Gerist það æ ofan í æ að sömu stofnanir eða ráðuneyti þurfi aukin framlög án þess að skilgreindum verkefnum þeirra fjölgi er brýnt að fjárlaganefnd hafi ótakmarkaðan aðgang að öllum gögnum sem snerta fjárlagagerðina.
    Ef stofnanir fá síðan minna en þær telja sig þurfa til að sinna lögboðnum verkefnum er nauðsynlegt að svara því strax hvernig þær eigi að bregðast við, hvort t.d. eigi að draga úr þjónustu.

Valdníðsla framkvæmdarvaldsins.
    Það að ráðuneyti mæli gegn því að forstöðumenn einstakra stofnana komi að eigin frumkvæði á fund fjárlaganefndar er bein valdníðsla sem hæpið er að standist lög sem lúta að réttindum og skyldum forstöðumanna. Félag forstöðumanna og stéttarfélög þeirra ættu að taka á þessu máli með beinum hætti. Mikilvægt er að fjárlaganefnd og Alþingi beiti fullri hörku í að kveða þessa valdníðslu niður. Að öðrum kosti stefnir í fullkomna ráðstjórn framkvæmdarvaldsins en Alþingi situr eftir sem hrein afgreiðslustofnun.
    Ein ástæða þessa er að staða Alþingis, einstakra þingnefnda og þingmanna er afar veik hvað varðar möguleika til sjálfstæðrar vinnu við mat á efnahagsforsendum og fjárlagagerð. Eftir að Þjóðhagsstofnun var lögð niður verður þingið í veigamiklum atriðum að treysta á tölur og mat framkvæmdarvaldsins sjálfs á þróun efnahagsmála og grunnforsendum fjárlagagerðarinnar.

Menntamál.
    Veruleg ástæða er til að hafa áhyggjur af fjársýslu menntamálaráðuneytisins, einkum gagnvart framhaldsskólunum. Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt að framhaldsskólar eru ár eftir ár látnir bera halla, þ.e. skuld milli ára. Þverskallast hefur verið við að viðurkenna óumflýjanlegan rekstrarkostnað þeirra. Á þetta einkum við framhaldsskóla í dreifbýli sem reka heimavistir og eru með umtalsvert verknám en mismarga nemendur í árgangi eftir greinum. Einnig á þetta við um stóru framhaldsskólana eins og Menntaskólann í Kópavogi og Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á reiknilíkani og staða verknámsskólanna þannig að hluta leiðrétt, voru breytingarnar ófullnægjandi og í stað þess að aukið fjármagn kæmi inn í framhaldsskólann var fé einungis fært á milli námsbrauta.
    Framhaldsskólinn er einn veikasti hlekkur skólakerfisins og því er fullkomið ábyrgðarleysi að taka ekki á fjárhagsvanda hans.
    Unnið verður að tillögum til að bæta hlut framhaldsskólans fyrir 3. umræðu.

Framtíð sauðfjárræktar.
    Í frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að 170 millj. kr. verði veittar til úreldingar sauðfjársláturhúsa, sérstaklega þeirra sem ekki uppfylla skilyrði til útflutnings. Að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs getur það verið skynsamlegt að ríkisvaldið komi einstaka sinnum til hjálpar til þess að styrkja ákveðnar byggðaaðgerðir eða auka hagkvæmni í ákveðnum atvinnugreinum. Hins vegar er tillagan um úreldingu sláturhúsa illa undirbúin. Ekki liggur fyrir nein sérstök stefnumörkun um fyrirkomulag slátrunar og kjötiðnaðar í landinu. Hér vantar alla framtíðarsýn af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það getur ekki verið skynsamlegt að heilu landshlutarnir, eins og allt Vesturland og Vestfirðir, séu án sláturhúss. Í hagræðingarfárinu sjást menn ekki fyrir. Lítil sláturhús sem mönnuð eru starfsfólki úr nágrannabyggðum skipta miklu máli fyrir tekjuöflun íbúa viðkomandi héraðs. Þau hafa jafnframt oft reynst hagkvæmustu einingarnar í rekstri. Við lokun þeirra færast verkefnin í örfá stór sláturhús þar sem manna verður störfin tímabundið með erlendu vinnuafli. Flutningskostnaður verður óhóflegur, hætta er á dreifingu smits þegar fé er flutt yfir varnarlínur og flutningur sláturfjár um langan veg jaðrar við brot á lögum.
    Þó að Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagni sérstöku framlagi upp á 140 millj. kr. til að bæta erfiða afkomu í sauðfjárbúskap og styðja við sauðfjárbændur sem orðið hafa fyrir tekjuskerðingu vegna versnandi stöðu búgreinarinnar í kjölfar verðlækkana á kjötmarkaði, þá óskar hún eftir raunverulegri framtíðarsýn og framtíðarlausnum. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar og stuðning við byggð í sveitum. Í henni er lagt til að Alþingi kjósi nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka til að vera stjórnvöldum og bændasamtökunum til samstarfs og ráðuneytis við að móta nýjan grundvöll fyrir búvöruframleiðsluna og gera tillögur um ráðstafanir til að treysta byggð í sveitum. Sérstaklega verði hugað að því hvernig útfæra megi búsetutengdan grunnstuðning sem hluta af stuðningi við landbúnað og búsetu í sveitum. Markmiðið væri að finna leiðir til fjölbreyttari nýsköpunar og þróunar í atvinnulífi strjálbýlisins, skapa meira jafnræði milli greina, undirbúa nauðsynlegar breytingar vegna nýrra alþjóðasamninga á sviði landbúnaðarmála og taka á vandamálum núverandi landbúnaðarkerfis.

Stöðvum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.
    Fjárhagsvandi heilbrigðisstofnana fer ekki minnkandi. Í lok ársins 2001 voru útgjöld þeirra umfram fjárheimildir rúmar 1.151 millj. kr. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar „Endurskoðun ríkisreiknings 2002“ eru útgjöld heilbrigðisstofnana umfram fjárheimildir rúmar 1.366 millj. kr. Fjárhagsvandi þeirra hefur því aukist um 215 millj. kr. á milli áranna. Ljóst er að taka þarf á þessum vanda. Ár eftir ár eru samþykktar aukafjárveitingar til Landspítala – háskólasjúkrahúss. Við fjárlagagerðina í fyrra benti Vinstri hreyfingin – grænt framboð á að ekki hefði komið nægjanlega skýrt fram hvað olli framúrkeyrslu á spítalanum. Aftur er lagt til að auka fjárveitingu til spítalans upp á tæpa 2 milljarða kr. án þess að skýringar á endurtekinni framúrkeyrslu fáist. Nokkuð ljóst virðist þó vera að um er að ræða sambland af skipulagsleysi af hálfu stjórnvalda á undanförnum árum og óraunhæfum fjárveitingum. Þvert á opinbera stefnu í heilbrigðismálum hefur heilbrigðisþjónustan markvisst þróast í tvöfalt kerfi einkavæddrar sérfræðiþjónustu og opinberrar heilsugæslu á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum. Opinberar stofnanir verða eðlilega að halda kostnaði sínum innan fjárlagaramma. Þegar rekstrarkostnaður eykst hafa þær aðeins það ráð að vísa verkefnum út af sjúkrahúsunum. Þar taka við sérfræðingar á einkareknum stofum, sem geta sent reikninga sína nánast sjálfvirkt til Tryggingastofnunar. Þannig byggist upp tvöfalt heilbrigðiskerfi um sömu grunnþættina sem gerir þróun heilbrigðiskerfisins handahófskennda og ómarkvissa og veldur því að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hækkar. Mikilvægt er að snúa af braut einkavæðingar í heilbrigðismálum sem núverandi ríkisstjórn hleypti af stað og hefur stóraukist undanfarin ár. Að mati Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er mikilvægt að byggja upp heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni svo að þær geti veitt sem besta staðbundna þjónustu og eftirmeðferð. Landspítali – háskólasjúkrahús á fyrst og fremst að byggjast upp sem hátæknispítali og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri á að sérhæfa sig sem hátæknispítali á sérstökum sviðum. Heilbrigðiskerfið þarf að starfa sem ein heild. Það gengur ekki að fjöldi fólks sé án heilsugæslulæknis og leiti því á náðir sérfræðinga. Það gengur ekki lengur að ýta vandanum á undan sér.
    Það má ekki gerast að rekið verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, annars vegar fyrir ríka og hins vegar fyrir fátæka. Hér þarf markvissa stefnu og aðgerðir af hálfu stjórnvalda.

Sitthvað eftir í pokahorninu.
    Fjáraukalagafrumvarpið er nú afgreitt til 2. umræðu en eftir er að ganga frá endurskoðaðri tekjuáætlun ársins 2003 sem verður gert við 3. umræðu.
    Þá er eftir að ljúka athugun á stöðu framhaldsskólanna og skiptingu fjár til einstakara skóla, svo og að athuga þörf á auknum framlögum til heilbrigðisstofnana, öldrunar- og daggjaldastofnana, og skiptingu fjár. Fjárhagsstaða sumra sveitarfélaga er mjög slæm og breyttar reglur um úthlutun fjár úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga auka þann vanda. Á undanförnum árum hefur bráðavandi verið leystur með sérstökum framlögum til Jöfnunarsjóðs á fjáraukalögum, t.d. fólksfækkunarframlögum. Ljóst er að grípa þarf til hliðstæðra ráðstafana nú.
    Það er því ljóst að frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2003 getur tekið umtalsverðum breytingum fyrir 3. umræðu.

Alþingi, 18. nóv. 2003.



Jón Bjarnason.