Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 298. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 549  —  298. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Brynju Magnúsdóttur um menningartengda ferðaþjónustu.

     1.      Hvað hefur verið gert á vegum samgönguráðuneytis til að fylgja eftir skýrslu um menningartengda ferðaþjónustu sem ráðuneytið gaf út í ágúst 2001 og þeim hugmyndum sem þar koma fram um eflingu slíkrar ferðaþjónustu?
    Í framhaldi af gerð skýrslunnar hófst á vegum samgönguráðuneytisins vinna við gerð aðgerðaáætlunar í menningartengdri ferðaþjónustu. Sú áætlun lá fyrir vorið 2002.
    Á vegum ráðuneytisins hefur síðan verið unnið að ákveðnum aðgerðum í samræmi við tillögur í umræddri skýrslu. Má þar m.a. nefna samning við Snorrastofu um gerð menningartengds vefs, sem gerður var sl. vor, aðkomu að sérstöku verkefni til að kynna íslenska hestinn og úttekt á möguleikum okkar hvað varðar að gera Ísland að sælkeraáfangastað. Að þessu síðasttalda verkefni er einnig unnið á vegum ráðuneytisins innan verkefnisins „Iceland Naturally“, m.a. með sérstakri matarhátíð hér á landi sl. tvö ár.
    Auk þessara verkefna og ýmissa fleiri sem unnið er að í samræmi við tillögur í umræddri skýrslu hefur menningin orðið sterkari þáttur en fyrr í allri opinberri kynningu á landi og þjóð. Þá hefur Alþingi aukið fjárveitingar til viðhalds og endurgerðar gamalla húsa víða um land, en á það er einmitt lögð áhersla í umræddri skýrslu. Ýmislegt fleira hefur verið sett af stað af hálfu opinberra aðila og einnig rekstraraðila í ferðaþjónustu í samræmi við tillögur í skýrslunni.
    En þrátt fyrir að ýmis verkefni séu komin í framkvæmd þá var skýrslan um menningartengda ferðaþjónustu unnin sem ein af mörgum til undirbúnings gerðar ferðamálaáætlunar til næstu 10 ára, sem nú er hafin vinna við. Til að undirbúa þá vinnu voru m.a. unnar skýrslur um heilsutengda ferðaþjónustu, menningartengda ferðaþjónustu, framtíðarsýn ferðaþjónustu og sérstök skýrsla sem ber heitið „Auðlindin Ísland“ og verður rædd frekar í svari við 2. lið. Rétt er að benda á að þær tillögur sem settar eru fram í þessum skýrslum snúa ekki síst að aðilum í atvinnugreininni og heimamönnum á hverju svæði.

     2.      Hefur samgönguráðuneyti stuðst við skiptingu landsins í þróunar- og markaðssvæði, eins lagt er til í skýrslunni, og ef svo er, hver er grundvöllur þessarar skiptingar og hvað hefur ráðherra gert til að efla menningartengda ferðaþjónustu á öðrum svæðum sem ekki eru nefnd sérstaklega í skýrslunni?
    Í skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu er sett fram tillaga að skiptingu landsins í sérstök þróunar- og markaðssvæði. Af hálfu ráðuneytisins hefur ekki enn verið unnið eftir þessum tillögum. Því er ekki um það að ræða að sérstaklega hafi verið litið til þeirra svæða né þá að hægt sé að svara því hvað hafi verið gert fyrir þau svæði sem ekki eru nefnd í skýrslunni. Unnið hefur verið almennt að eflingu þessa þáttar ferðaþjónustunnar án tillits til þeirra tillagna um skiptingu landsins sem vísað er til í spurningunni.
    Ráðuneytið óskaði eftir því við Ferðamálaráð í byrjun árs 2002 að unnin yrði úttekt á landinu öllu með tilliti til möguleika einstakra landshluta til að þróa ferðaþjónustu. Ferðamálaráð skilaði haustið 2002 skýrslu sem ber heitið „Auðlindin Ísland“. Í henni eru gerðar tillögur um skiptingu landsins í þróunar- og markaðssvæði. Sú skipting sem þar er gerð tillaga um er önnur en sú sem fram kemur í skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu og byggist á fleiri forsendum einstakra svæða. Þá er þar t.d. gerð tillaga um mismunandi svæði eftir því hvort verið er að ræða um þróun ferðaþjónustu annars vegar og markaðssetningu hins vegar.
    „Auðlindin Ísland“ er ein af þeim grunnskýrslum sem unnar voru vegna gerðar ferðamálaáætlunar sem nú er hafin á grunni allrar þeirrar forvinnu sem áður er getið og hefur verið unnin á undanförnum missirum.