Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 428. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 594  —  428. mál.




Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)


1. gr.

    3. mgr. 7. gr. laganna orðast svo:
    Áður en leyfðum heildarafla er skipt á grundvelli aflahlutdeildar skal draga eftirtalið frá:
1.      Áætlaðan afla báta sem stunda veiðar með dagatakmörkunum.
2.      Aflaheimildir skv. 9. gr. og 9. gr. a.
3.      Aflaheimildir og áætlaðan afla til línuívilnunar skv. 10. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Þá getur ráðherra ákveðið að eftirstöðvum aflaheimilda, sem ráðherra hefur til ráðstöfunar skv. 1. málsl., eða hluta þeirra, verði ráðstafað í samráði við Byggðastofnun til stuðnings byggðarlögum, þannig:
         a.      Til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum á bolfiski.
         b.      Til byggðarlaga sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað hafa afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í byggðarlögunum.
b.      3. mgr. verður nýtt ákvæði til bráðabirgða við lögin og jafnframt koma tveir nýir málsliðir í stað 1. málsl., svohljóðandi: Á fiskveiðiárinu 2004/2005 er sjávarútvegsráðherra heimilt að úthluta samtals 500 lestum af ýsu, 500 lestum af steinbít og 150 lestum af ufsa, miðað við óslægðan fisk, til krókaaflamarksbáta sem gerðir eru út frá sjávarbyggðum sem að verulegu leyti eru háðar veiðum krókaaflamarksbáta. Á fiskveiðiárinu 2005/2006 skal ráðherra úthluta með sama hætti 250 lestum af ýsu, 250 lestum af steinbít og 75 lestum af ufsa.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra er heimilt í reglugerð að ákveða að takmörkun á heimild skv. 2. málsl. skuli í ákveðnum fisktegundum miðast við hærri viðmiðun en 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks.
b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Við línuveiðar dagróðrabáta sem beita línu í landi má landa 16% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða úr höfn þeirri þar sem línan var tekin um borð. Ákvæði þetta tekur aðeins til þeirra báta sem tilkynna staðsetningu um sjálfvirkt tilkynningarkerfi íslenskra skipa, sbr. lög nr. 41 20. mars 2003, um vaktstöð siglinga. Línuívilnun í þorski skal á hverju fiskveiðiári takmarkast við 3.375 lestir af óslægðum þorski og skal það magn skiptast innan hvers fiskveiðiárs á fjögur þriggja mánaða tímabil frá 1. september að telja, hlutfallslega með hliðsjón af þorskveiðum línubáta á árinu 2002. Fiskistofa fylgist með línuafla og tilkynnir ráðuneytinu hvenær telja megi líklegt að leyfilegu viðmiðunarmagni hvers tímabils verði náð. Ráðuneytið tilkynnir síðan frá hvaða tíma þorskafli á línu skuli reiknast að fullu til aflamarks. Þá getur ráðherra með sama hætti ákveðið hámark á heildarmagn ýsu og steinbíts til línuívilnunar og jafnframt ákveðið að ýsu- og steinbítsafli skuli reiknast að fullu til aflamarks þegar því er náð. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði XXVI til bráðabirgða við lögin, sbr. ákvæði IV til bráðabirgða við lög nr. 1 14. janúar 1999:
a.      1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Byggðastofnun hefur til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2004/ 2005 aflaheimildir sem nema 750 þorskígildislestum og á fiskveiðiárinu 2005/2006 aflaheimildir sem nema 375 þorskígildislestum til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi.
b.      2. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. september 2004. Þó skal ákvæði a-liðar 3. gr. og ákvæði b-liðar 3. gr. að því er varðar línuveiðar á steinbít og ýsu koma til framkvæmda 1. febrúar 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meginatriði þessa frumvarps er að lagt er til að tekin verði upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta, enda sé lína beitt í landi. Þá er lagt til að aukin verði heimild til að koma byggðarlögum til aðstoðar með úthlutun sérstakra aflaheimilda standi þau höllum fæti vegna almenns samdráttar í sjávarútvegi eða vegna skerðingar aflaheimilda til skipa sem þaðan hafa verið gerð út og landað afla. Samhliða þessu er lagt til að á tveimur næstu árum verði dregið úr úthlutun sérstakra aflaheimilda til krókaaflamarksbáta og sérheimildum Byggðastofnunar til úthlutunar aflaheimilda og þær heimildir síðan felldar niður. Að lokum er lagt til að nokkur rýmkun verði gerð á heimild til tegundatilfærslu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. segir að afli og áætlaður afli sem stafar af því að tekin er upp sérstök línuívilnun fyrir dagróðrabáta komi til frádráttar áður en leyfilegum heildarafla er skipt milli einstakra skipa á grundvelli aflahlutdeildar þeirra. Er það í samræmi við önnur ákvæði sem gilda um slíkar sérúthlutanir.

Um 2. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna hefur ráðherra til ráðstöfunar 12.000 lestir af óslægðum botnfiski til að mæta fyrirsjáanlegum áföllum sem útgerðir kunna að verða fyrir vegna verulegra breytinga í aflamarki einstakra tegunda. Af þessum 12.000 lestum er ráðherra heimilt að ráðstafa sérstaklega 1.500 lestum til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Heimild þessari hefur einkum verið beitt til að bæta skipum skerðingar sem orðið hafa í skel- og rækjuveiðum auk þess sem heimild til úthlutunar til stuðnings byggðarlögum hefur verið nýtt á þessu og síðasta fiskveiðiári. Í a-lið greinarinnar er lagt til að heimild ráðherra til stuðnings byggðarlögum verði rýmkuð þannig að hún takmarkist ekki við 1.500 lestir heldur við allan þann hluta sem ekki verður nýttur til að bæta skipum skerðingar í aflaheimildum. Þá er lagt til að heimildinni verði breytt á þann veg að hún taki einnig til byggðarlaga sem verða fyrir því að aflaheimildir flytjist úr byggðarlaginu, enda hafi sá flutningur haft veruleg áhrif á atvinnuástand í því byggðarlagi og skal í slíkum tilvikum haft samráð við Byggðastofnun. Eðlilegt er því þegar þetta er metið að horft sé til annarra aðgerða sem gripið hefur verið til í því skyni að efla búsetu í minni byggðarlögum.
    Í b-lið þessarar greinar er lagt til að heimild ráðherra til úthlutunar aflaheimilda til krókaaflamarksbáta minnki um helming frá yfirstandandi fiskveiðiári til ársins 2004/2005 og loks aftur um helming frá því ári til ársins 2005/2006. Í ljósi þess að lagt er til að heimildin falli síðan niður þykir fara betur á því að ákvæðið sé gert að bráðabirgðaákvæði.

Um 3. gr.

    Í a-lið þessarar greinar er lagt til að ráðherra geti rýmkað heimild til tegundatilfærslu þannig að hún takmarkist ekki við 2% af heildaraflaverðmæti botnfiskaflamarks fiskiskips eins og kveðið er á um í núgildandi ákvæði. Tilgangur með slíkri breytingu er sá að geta brugðist við í þeim tilvikum þegar einhverrar tegundar tekur að gæta í meira mæli í afla skipa en við hefði mátt búast. Má hér sem dæmi nefna að langa og keila eru í mjög mismunandi miklum mæli meðafli við línuveiðar. Með því að hækka viðmiðunarmörkin í þeim tegundum gengju þessar veiðar eðlilegar fyrir sig.
    Í b-lið þessarar greinar er lagt til að tekin verði upp línuívilnun við veiðar dagróðrabáta. Línuívilnunin tekur til línuveiða á þorski, ýsu og steinbít. Enda þótt notað sé orðið dagróðrabátur venju samkvæmt takmarkast þessi heimild ekki við ákveðna stærð skipa. Skilyrði þess að línuskip njóti slíkrar línuívilnunar eru þau að línan sé beitt í landi, róður standi ekki lengur en sólarhring, aflanum sé landað þar sem línan er tekin um borð og báturinn sé með sjálfvirkt tilkynningarkerfi um borð. Línuívilnun í þorski takmarkast við 3.375 lestir sem eru 16% af áætluðum þorskafla dagróðrabáta á árinu 2002. Hins vegar er ekki takmörkun á magni ýsu og steinbíts sem þannig má veiða utan aflamarks á línu, en ráðherra getur sett slíka takmörkun á þær veiðar telji hann ástæðu til.

Um 4. gr.

    Hér er lagt til að heimild Byggðastofnunar til að úthluta árlega 1.500 lestum til stuðnings byggðarlögum, sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi, verði minnkuð um helming frá yfirstandandi fiskveiðiári til ársins 2004/2005 og loks aftur um helming frá því ári til ársins 2005/2006 og falli síðan niður. Þá er lagt til að þessi sérstaka heimild falli niður eftir fiskveiðiárið 2005/2006 en flytjist ekki til ráðuneytisins eins og kveðið er á um í gildandi ákvæði. Þykir það eðlilegt miðað við þá breytingu sem felst í 2. gr. þessa frumvarps.

Um 5. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi en komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. september 2004 að öðru leyti en því að línuívilnun í ýsu og steinbít taki gildi 1. febrúar 2004 og enn fremur sú breyting sem lagt er til að gerð verði á heimild til tegundatilfærslu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 28 15. maí 1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp línuívilnun fyrir dagróðrabáta auk þess að auknar verði heimildir til að koma byggðarlögum til aðstoðar með úthlutun sérstakra aflaheimilda. Talið er að kostnaður Fiskistofu vegna hugbúnaðarkerfa verði um 1 m.kr. og á sá kostnaður að rúmast innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar. Verði frumvarpið að lögum mun það því hafa óveruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs.