Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 715  —  388. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Arnbjargar Sveinsdóttur um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra.

     1.      Hvaða reglur gilda um greiðslu ferðakostnaðar sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands?
    Í gildi eru reglur nr. 213/1999 með þremur seinni breytingum, þ.e. nr. 927/2000, nr. 762/2002 og nr. 465/2003.
    Þessar upplýsingar og ferðareglur má sjá nákvæmlega á heimasíðum heilbrigðisráðuneytis og Tryggingastofnunar ríkisins.

     2.      Hver er taxtinn á kílómetragjaldi vegna aksturs?
    Viðmiðunargjald á ekinn km við akstur eigin bifreiðar í ferð sjúklings innan lands er nú 16,05 kr.

     3.      Hvernig er ákvörðunartöku háttað um þann taxta?

    Viðmiðunargjaldið er ákveðið upphaflega með reglum um ferðakostnað (nú nr. 213/1999) og breytist í hlutfalli við akstursgjald ríkisstarfsmanna samkvæmt auglýsingu ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma.

     4.      Hefur ráðherra íhugað endurskoðun á þeim taxta?

    Ráðherra hefur ekki ráðgert breytingu á því fyrirkomulagi sem nú gildir.

     5.      Hvernig er greitt fyrir dvalarkostnað?

    Reglur um ferðakostnað sjúklinga innan lands gera ekki ráð fyrir greiðslu á dvalarkostnaði. Líknarfélög, Landspítali og ýmis stéttarfélög bjóða upp á ódýrt húsnæði í höfuðborginni. Rauði krossinn (sjúkrahótel), Reykjalundur og Heilsuhælið í Hveragerði eru t.d. með þjónustusamninga við ráðuneytið þar sem sjúklingar greiða ýmist ekkert eða tiltölulega lágt gjald fyrir sólarhringsgistingu.

     6.      Er í einhverjum tilfellum greitt fyrir vinnutap foreldra og fylgdarmanna barna?

    Vinnutap aðstandenda í sjúkdómstilfellum er ekki bætt, nema ef telja skyldi í þann flokk áframhald greiðslna umönnunarbóta í þeim tilfellum þegar börn dvelja á sjúkrahúsum.

     7.      Að hve miklu marki greiða vinnuveitendur og sjúkrasjóðir fyrir vinnutap foreldra vegna ferða þeirra með börn sín til þess að leita sérfræðiþjónustu eða til sjúkrahúsvistar?
    Upplýsingar af þessu tagi liggja ekki fyrir hjá ráðuneytinu.

     8.      Mun ráðherra beita sér fyrir endurskoðun á reglum um ferðakostnað og vinnutap foreldra með það að markmiði að jafna búsetuskilyrði í landinu?
    Fyrsta skrefið hefur verið stigið til að breyta umhverfi reglna um ferðakostnað sjúklinga innan lands með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993, sem nú liggur fyrir Alþingi, en sú breyting lýtur að því að færa tillögurétt tryggingaráðs um ferðakostnað alfarið til ráðuneytis.
    Breytingar á ferðakostnaði foreldra með tilliti til greiðslu vinnutaps í því augnamiði að jafna búsetuskilyrði í landinu verða vart unnin að ráði nema til komi samvirkt átak ríkis, vinnumarkaðar og sjúkrasjóða stéttarfélaga í landinu, sem innheimta 1% launasummu allra vinnandi manna í landinu til að mæta erfiðleikum fólks á vinnumarkaði í veikindum.